fbpx
Miðvikudagur 02.júlí 2025
433Sport

KSÍ blæs öll mót af – Valur og Breiðablik Íslandsmeistari

Hörður Snævar Jónsson
Föstudaginn 30. október 2020 17:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í dag, föstudaginn 30. október, að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppni KSÍ 2020, í samræmi við 5. grein í reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (Covid-19), sem samþykkt var og gefin júlí síðastliðnum. Ákvörðunin tekur strax gildi.

Valur er því Íslandsmeistari í karlaflokki og Breiðablik í kvennaflokki. FH, Breiðablik og Stjarnan fara í Evrópukeppni í karlaflokki en KR situr eftir með sárt ennið.

Keflavík og Leiknir fara upp í efstu deild en Grótta og Fjölnir falla úr deildinni. Kórdrengir og Selfoss fara upp í Lengjudeildina en úr henni falla Magni og Leiknir Fáskrúðsfirði.

Í kvennaflokki fellur KR og FH á útreiknuðum stigum en um er að ræða meðaltal stiga í sumar

Reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (Covid-19)

Íslandsmót
Í 5. grein reglugerðarinnar kemur fram að hafi að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja í efstu deild, 1. deild og 2. deild verið leiknir samkvæmt mótaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í öllum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir.

Bikarkeppni
Í samræmi við 5. grein reglugerðarinnar verður ekkert lið krýnt Mjólkurbikarmeistari 2020.

Þátttaka í Evrópukeppnum
Í 6. grein reglugerðarinnar er fjallað um þátttöku í Evrópukeppnum. Þar kemur fram að þátttaka liða í Evrópukeppni ársins 2021 skuli ráðast af röð þeirra í efstu deild Íslandsmótsins. Jafnframt kemur fram að náist ekki að ljúka keppni í bikarkeppni karla, en Íslandsmóti lýkur samkvæmt grein 5.1.1. leikur liðið í 4. sæti efstu deildar Íslandsmóts í Evrópukeppni.

Lokastaða liða

Bókun stjórnar KSÍ:
Í ljósi hertra sóttvarnarreglna, sem banna íþróttastarf á Íslandi a.m.k. til 17. nóvember nk. og að fenginni tillögu mótanefndar, verður ekki séð að unnt sé að halda keppni áfram á Íslandsmótunum í knattspyrnu. Stjórn KSÍ samþykkir því að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppni KSÍ 2020, sem fyrirhugað var að ljúka fyrir lok nóvember.

Ákvörðun þessi er stjórninni þungbær en nauðsynleg með heildarhagsmuni knattspyrnuhreyfingarinnar í huga. Í reglugerð sem stjórn KSÍ setti í júlí sl. er kveðið á um hvernig haga skuli málum ef ekki verður unnt að ljúka keppni innan framlengds keppnistímabils. Það er samdóma álit stjórnar KSÍ og mótanefndar að ekki séu fyrir hendi forsendur til að halda keppni áfram í ljósi stöðu mála. Það byggist m.a. á eftirfarandi:

a) Ekki eru lengur fyrir hendi umtalsverðar líkur á því að unnt sé að ljúka mótahaldi fyrir 1. desember með ásættanlegum hætti.
b) Sú mikla röskun sem hefur orðið á mótahaldi síðustu vikur og bann við æfingum liða á höfuðborgarsvæðinu leiðir af sér að gera verður ráð fyrir undirbúningstíma liðanna ef æfingar og keppni verða á ný heimilaðar um miðjan nóvember. Þetta takmarkar enn frekar þann tíma sem unnt væri að nýta sem leikdaga. Einnig verður að hafa í huga í því sambandi heilsu og velferð leikmanna.
c) Hertar sóttvarnarreglur og lýðheilsusjónarmið mæla því mót að unnt verði með einhverri vissu að halda keppni áfram út nóvembermánuð – ef slíkt verður á annað borð heimilað.
Yfirstandandi keppnistímabil hefur verið afar óvenjulegt eins og flest annað í samfélaginu. Upphafi tímabilsins seinkaði verulega og í tvígang hefur þurft að gera hlé á keppni. Þessi framgangur hefur reynt mjög á alla knattspyrnuhreyfinguna – félögin og forsvarsmenn þeirra, leikmenn , dómara, þjálfara, starfsmenn, sjálfboðaliða, skipuleggjendur móta og allt áhugafólk um íslenska knattspyrnu. Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður hefur tekist að ljúka um 80% af leikjum efstu deildar karla og um 90% af leikjum annarra deilda, en 4. deild karla og yngri flokkum náðist að ljúka. Það er árangur í sjálfu sér og ber að þakka öllum þeim sem lagt hafa á sig mikla vinnu til þess að ná því marki.

Reglugerð KSÍ um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru gerir ráð fyrir því að Íslandsmeistarar og deildarmeistarar verði krýndir, enda hafa 2/3 hlutar leikja allra deildarkeppna verið leiknir. Í reglugerðinni er einnig tilgreint að náist ekki að ljúka keppni í bikarkeppni karla, en Íslandsmóti lýkur samkvæmt grein 5.1.1. í reglugerðinni þá leiki liðið í 4. sæti efstu deildar Íslandsmóts í Evrópukeppni. Ákvæði 5. greinar reglugerðarinnar og greinar 6.2. taka því gildi frá og með deginum í dag. Mótslok með þessum hætti er neyðarviðbragð í ljósi sóttvarnarreglna og ástandsins í samfélaginu. KSÍ ítrekar þakkir til allra sem lagt hafa á sig ómælda vinnu til þess að halda mótum ársins gangandi við óvenjulegar og krefjandi aðstæður.

Stjórn KSÍ minnir á að íslensk íþróttafélög hafa orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni sem óhjákvæmilegt er að koma frekar til móts við en gert hefur verið og jafn brýnt er að styðja félögin til þess að snúa við því félagslega tjóni sem orðið hefur með brottfalli iðkenda. Því er skorað á stjórnvöld og sveitarfélög að leggjast á árarnar með íþróttahreyfingunni í því skyni að tryggja það öfluga íþrótta- og æskulýðsstarf sem þar er unnið og viðunandi rekstrarforsendur félaganna.

Það er von okkar að við náum árangri í þeirri baráttu sem er framundan. Starfið heldur áfram og verkefni næstu vikna og mánaða eru mörg og ærin. Meðal þess sem þarf að finna farveg er hin gríðarlega mikilvæga starfsemi yngri flokkanna. Ungir iðkendur þurfa stöðugleika og reglusemi. Krakkarnir treysta á að geta stundað æfingar hjá sínum félögum, þar sem þau styrkja líkamlega og andlega heilsu sína og félagsfærni við æfingar og leik með sínum liðsfélögum.

Við erum sterkust þegar við sýnum liðsheild. Stöndum saman á þessum erfiðu tímum!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Arsenal óvænt farið að eltast við kantmann Chelsea

Arsenal óvænt farið að eltast við kantmann Chelsea
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Þjálfari Finna ræddi hætturnar í liði Íslands og nefndi Sveindísi sérstaklega

Þjálfari Finna ræddi hætturnar í liði Íslands og nefndi Sveindísi sérstaklega
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

United hefur áhuga á því að kaupa spænska miðjumann PSG

United hefur áhuga á því að kaupa spænska miðjumann PSG
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Selfoss staðfestir komu Jóns Daða

Selfoss staðfestir komu Jóns Daða
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Karólína: „Við erum allar bestu vinkonur“

Karólína: „Við erum allar bestu vinkonur“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Gæti eitthvað farið að gerast hjá Liverpool varðandi Isak – Þetta gæti orðið verðmiðinn

Gæti eitthvað farið að gerast hjá Liverpool varðandi Isak – Þetta gæti orðið verðmiðinn
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Búist við að Jón Daði verði kynntur í dag

Búist við að Jón Daði verði kynntur í dag
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Duran aftur til Evrópu

Duran aftur til Evrópu