„Lýsi ánægju minni með störf stjórnar KSÍ. Þetta er hárrétt ákvörðun. Auðvitað á að reyna að klára mótið ef er hægt. Klárum mótið án áhorfenda sem allra fyrst,“ skrifaði Jón Júlíus Karlsson framkvæmdarstjóri Grindavíkur um þá ákvörðun stjórnar KSÍ í gær að reyna að klára öll Íslandsmóti í meistaraflokki.
Ákvörðun KSÍ var tekinn af vel ígrunduðu máli en stjórnin hafði fundað stíft dagana á undan og skoðað alla fleti málsins. KSÍ staðfesti þá ákvörðun sína í gær að reynt yrði að hefja leik aftur í byrjun nóvember ef reglugerð yfirvalda leyfir. Allt hefur verið stopp í rúmar tvær vikur vegna kórónuveirunnar. „Að mótum meistaraflokka verði haldið áfram í öllum deildum að því tilskyldu að takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember,“ sagði í yfirlýsingu KSÍ.
Talsverður fjöldi félaga vildi hreinlega blása mótið af á þessum tímapunkti, flest höfðu talsvert mikla hagsmuni af því að hætta leik. Fjöldi félaga vildi halda áfram og var það niðurstaða stjórnar KSí að reyna það, mótin verða að klárast fyrir 1 desember samkvæmt reglugerð sambandsins.
„Þetta var mjög erfið ákvörðun. Þarna eru alls konar hagsmunir og þetta er margþætt ákvörðun. Það er við ýmislegt að etja t.d. í aðstöðumálum, veðurfari, heilbrigðismálum. Þetta var stór ákvörðun og tók mikið á,“ sagði Guðni Bergsson formaður KSí á Stöð2 í gær um ákvörðun stjórnar KSÍ.
Ekki eru allir sáttir með þessa ákvörðun KSÍ og segja má að knattspyrnuhreyfingin skiptist í tvo hópa á samfélagsmiðlinum Twitter að dæma eru það helst Þróttarar og Keflvíkingar úr Lengjudeildinni sem mótmæla þessari ákvörðun KSÍ. „Engin virðing og ekkert tillit tekið til leikmanna með þessa ákvörðun,“ skrifar Joey Gibbs framherji Keflavíkur á Twitter í gær. Keflavík hefði haft hagsmuni af því að blása mótið af, liðið er í efsta sæti Lengjudeildarinnar og hefði farið upp án þess að spila síðustu þrjá leikina sína. Ef mótið fer af stað á liðið eftir erfiða leiki og allt getur gerst.
Samkvæmt tilmælum frá ÍSÍ eiga félög á höfuðborgarsvæðinu ekki að æfa saman þó talsverður fjöldi sé byrjaður á því. Þórir Hákonarson starfmaður Þróttar segir að öll lið verði að hefja æfingar til að eiga möguleika að hefja leik í byrjun nóvember. „Meistaraflokkar í fótbolta á höfuðborgarsvæðinu verða bara að æfa full force á morgun. Íslandsmót eftir rúmar 2 vikur og hluti liða fær ekki að æfa? Fjarstæðukennt bull sem hvergi yrði samþykkt, hvergi nokkurs staðar sem fótbolti er leikinn, hvergi,“ skrifar Þórir en lið utan höfuðborgarsvæðisins hafa og geta haldið áfram að æfa.
Victor Ingi Olsen fyrrum starfsmaður Stjörnunnar er ekki sáttur með það hlutkesti sem hans lið fær. „Eins og ég skil þetta á td. Stjarnan eftir rétt tæpan mánuð af æfingabanni að fá 4 æfingadaga áður en liðið mætir ÍA sem hefur æft allan tíman. Ef þetta er svona þá er fyrirkomulagið algjört bull og setur faglegheitin í þessu á par við firmabolta. Liðin verða að fá að æfa strax,“ skrifar Victor en talað er um að efsta deild karla gæti farið af stað 8 nóvember ef regluverk yfirvalda leyfir.
Þjálfari Þróttar ósáttur með vinnubrögð KSÍ:
„Liðin mörg sendu sína menn heim í gær. Lá fyrir á fimmt hver staðan væri . Þvílíkt forystuleysi. En nú er félögum í Reykjavík nauðugur einn sá kostur en að hefja æfingar, og það strax. Bera þegar skarðan hlut frá borði,“ skrifar Þórður Einarsson einn af þjálfurum Þróttar um málið en félagið hefur talað fyrir því að blása mótið af, Þróttur hefði þá haldið sæti sínu í Lengjudeildinni á markatölu en þarf nú að leika tvo leiki og berjast um sætið ef mótið fer af stað.
Liðið berst við Magna Grenivík og Leikni Fáskrúðsfirði sem hafa getað æft síðustu daga og það finnst Þrótturum ekki eðlileg samkeppni.
Þórður og Þorlákur Árnason þjálfari í Hong Kong tóku svo mikla rimmu um málið en sonur Þorláks er í liði Fram sem er að berjast um að komast upp í efstu deild. Þórður sagði Þorlák á undarlegu ferðalagi en hann hefur talað fyrir því að klára mótin innan vallar en ekki í Excel skjali. „Þú ert á svo ótrúlega undarlegu ferðalagi í kringum þetta re-start mál. Þótt menn hafi ekki sömu skoðun og þína (sem litast af þínum hagsmunum líkt og hjá öllu öðru fólki) þýðir það ekki að þú getir endalaust vænt fólk um að vera grenja. getur betur,“ skrifaði Þórður.
Þorlákur sagði það undarlegt að fá svona skot á sig fyrir það eitt að vilja spila fótbolta. „Ertu að grínast? Vilja spila fótbolta. Láttu mig ekki pirra þig svona. Þú mátt hafa þína skoðun á þessu en ekki ég?:) Hagsmunir mínir, really?.“