Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands og leikmaður Fylkis í Pepsi-Max deild karla, Segir að rödd leikmanna hafi engu máli skipt þegar kom að ákvörðun Knattspyrnusambands Íslands um að reyna að klára Íslandsmótin í knattspyrnu. Stjórn KSÍ fundaði mikið vegna málsins en fótboltinn hefur verið í pásu vegna COVID-19 veirunnar, stjórnin ákvað að reyna allt sem er hægt til þess að klára Íslandsmót meistaraflokka á vellinum.
Arnar Sveinn birti í kvöld færslur á Twitter þar sem hann spyr hvernig KSÍ hafi komist að þeirri niðurstöðu að klára mótin og fyrir hverja sú ákvörðun hafi verið tekinn. „“Við stöndum saman þegar á reynir og látum úrslitin ráðast á vellinum ef mögulegt er.“ – svona lýkur yfirlýsingu frá stjórn KSÍ varðandi ákvörðun KSÍ um að klára mótin. Hverjir eru þetta sem eru að standa saman? Til hvaða aðila var leitað til þess að komast að þessari niðurstöðu?,“ skrifar Arnar á Twitter í gær.
Hann gefur ekki upp hvort hann hafi viljað reyna að halda áfram eða blása mótin af. „Án þess að taka afstöðu til þess hvort að mér finnist ákvörðun KSÍ rétt eða röng að þá finnst mér alveg tilefni til þess að spyrja að því hvernig þessi ákvörðun var tekin – og fyrir hverja.“
Leikmenn á höfuðborgarsvæðinu muni hafa sex daga til að æfa af alvöru fyrir fyrsta leik eftir hlé. Fram að því geta leikmenn æft með takmörkunum. „Nú eru settir leikir 8. nóvember, 6 dögum eftir að hægt er að hefja alvöru æfingar. Þarna er verið að setja leikmenn á öllum aldri af stað aftur í þriðja skipti þetta tímabil eftir nokkurra vikna stopp – og þeir fá 6 daga til þess að vera tilbúnir í 90 mínútna leik.“
„Það eitt og sér, burtséð frá því hvort eigi að klára mótið, þykir mér algjörlega galið og sýnir að ákvörðunin er tekin án þess að verið sé að hugsa um heilsu eða hag leikmanna,“
Hann virðist vera ósáttur með KSÍ og efast um að hagsmunir leikmanna hafi verið teknir til greina í ákvörðun sambandsins.
„Rödd leikmanna virðist engu máli skipta, ekki núna frekar en áður og það virðist ekki ætla að breytast,“ segir í færslu Arnars Sveins á Twitter