Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra verður óheimilt að spila fótbolta á höfuðborgarsvæðinu til 3. nóvember. Æfingar mega hefjast á morgun með takmörkunum. Boltar mega ekki fara á milli leikmanna og 20 manns mega að hámarki vera saman á vel skilgreindu svæði eru dæmi um þær reglur sem verður að framfylgja.
Stjórn KSÍ fundaði síðdegis í dag. Félög bíða eftir upplýsingum um framhald mótahalds. Vefsíðan fotbolti.net greinir frá því að stjórn KSÍ hafi ekki komist að niðurstöðu í dag og fundi því aftur í hádeginu á morgun. Í samtali við fotbolti.net sagði Guðni Bergsson formaður KSÍ að það sé margt sem þurfi að fara yfir og þurftu þau aðeins lengri tíma í það.
Búast má við tilkynningu frá KSÍ seinnipartinn á morgun.