Áhrifamenn í íslenskri knattspyrnu skilja ekki hvers vegna Arnar Þór Viðarsson þjálfari U21 árs landsliðs karla sleppur við sóttkví þegar hann kemur til landsins frá Lúxemborg. Arnar mun stýra A-landsliði karla í kvöld vegna aðstæðna hjá liðinu.
Allt starfsliðs A-landsliðs karla var sett í sóttkví í gær eftir að Þorgrímur Þráinsson greindist með COVID-19 veiruna.
Arnar mun stýra íslenska liðinu ásamt Davíði Snorra Jónassyni í kvöld gegn Belgíu í Þjóðadeildinni. Arnar var í Lúxemborg í gær þar sem U21 árs landsliðið vann góðan sigur. „Er það ekki óábyrgt af KSÍ að láta Adda sem var í Lúxemborg í dag stýra landsliðunu á morgun, stórefa að hann se kominn til Islands ? Hlýtur að þurfa að fara í skimun við komu í fyrrmalið og hvenær má hann þá hitta liðið sem hann á að stýra á morgun ?,“ segir Samúel Samúelsson formaður Vestra á Ísafirði á Twitter í gær.
Í landsliðsverkefnum eru undanþága frá sóttkví en þó aðeins má fara á hótelið þar sem liðið dvelur og á æfingar eða í leiki, fellur Arnar undir þessar reglur við komuna til landsins. Hann fer í skimun og ef veiran greinist ekki í honum hefur hann leyfi til að stýra liðinu klukkan 18:45 á Laugardalsvelli í kvöld.
Þórir Hákonarson fyrrum framkvæmdarstjóri KSÍ er einnig hissa á því að KSÍ fari þessa leið eftir að smit kom upp í gær. „Hmm, hvað er að gerast með okkar tilmæli í hreyfingunni, Addi stýrði U21 til sigurs í Evrópu í dag og svo bara Laugardalur á morgun? Hvaða endemis þvæla er þetta,“ skrifar Þórir og fleiri taka undir orð hans og Samúels
Á meðan leikurinn fer fram verða Erik Hamren og Freyr Alexandersson í glerstúkunni á Laugardalsvelli og geta komið skilaboðum áleiðis á bekkinn.
Hmm, hvað er að gerast með okkar tilmæli í hreyfingunni, Addi stýrði U21 til sigurs í Evrópu í dag og svo bara Laugardalur á morgun? Hvaða endemis þvæla er þetta? https://t.co/c5Dy16IZao
— Thorir Hakonarson (@THakonarson) October 13, 2020