Rúrik Gíslason hefur samið um starfslok við Sanhdausen í Þýskalandi. Frá þessu sagði Hjörvar Hafliðason í Dr. Football í dag.
Rúrik hefur ekki spilað með Sandhausen eftir að deildin fór af stað á nýjan leik og mátti ekki mæta til æfinga.
Deilurnar snérust um launalækkun sem Sandhausen ákvað einhliða á launum Rúriks. Samningur hans við félagið átti að renna út eftir nokkra daga en búið er að semja um starfslok.
„Rúrik þurfti lítið að gefa eftir, hann hafði ekki mikinn áhuga á leiðindum. Hann er laus eins og hann grínaðist með í samtali við mig þá er hann atvinnulaus,“ sagði Hjörvar í þætti dagsins.
Hjörvar sagði frá því að uppeldisfélag Rúriks myndi bjóða honum að koma heim en litlar sem engar líkur eru á að þessi 32 ára gamli leikmaður semji við HK.
„Hefur átt ótrúlegan feril. Ég veit að HK mun bjóða honum samning, þetta er þeirra leið til að sýna honum að hann sé velkominn.“