Víðir Sigurðsson, yfirmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins skrifar áhugaverðan pistil í blað dagsins. Víðir missti þrjá menn í gær þegar uppsagnir áttu sér stað hjá Morgunblaðinu, þrír af íþróttadeild blaðsins voru reknir.
Víðir hefur lengi verið í faginu en hann minnist þegar hann var rekinn í eina skiptið á sínum ferli.
,,Um þetta leyti árs fyrir 38 árum upplifði ég það í fyrsta og eina skiptið til þessa að vera sagt upp störfum. Þá var ég ungur háskólanemi og hafði verið íþróttafréttamaður á Dagblaðinu í tæplega þrjá mánuði. Ég var í skólanum á morgnana og vann á blaðinu frá hádegi og fram á kvöld. Þegar ég sat í strætó á leið frá Háskóla Íslands í Síðumúlann heyrði ég í hádegisfréttunum að síðdegisblöðin Dagblaðið og Vísir hefðu verið sameinuð um nóttina,“ skrifar Víðar.
Víðir vissi ekki hvað væri í gangi á vinnustað sínum þegar hann kom þangað. ,,Vegna skólans hafði ég misst af morgunhasarnum þegar starfsfólk blaðanna mætti grunlaust til vinnu og komst að því að annaðhvort var það komið til starfa á nýju blaði eða búið að missa vinnuna. Ég var í seinni hópnum. Þetta var einn erfiðasti dagur lífs míns fram að þessu. En ég hélt áfram, var kominn í fullt starf á öðrum fjölmiðli eftir fimm vikur og hef skrifað íþróttafréttir viðstöðulaust síðan.“
Í gær voru þeir Guðmundur Hilmarsson, Ívar Benediktsson og Sindri Sverrisson reknir af íþróttadeild Morgunblaðsins, allir með mikla reynslu.
,,Gærdagurinn var líklega sá erfiðasti í starfi í 38 ár. Við á íþróttadeild Árvakurs sáum á bak þremur af bestu íþróttafréttamönnum landsins. Það er ekki aðeins þungbært að sjá á eftir öflugum starfskröftum, heldur einnig samstarfsmönnum og félögum í þrjátíu, tuttugu og tólf ár. Þeir hafa allir markað djúp spor í sögu íslenskrar íþróttafréttamennsku og fá vonandi tækifæri til að halda því áfram annars staðar.“