Það kom talsvert á óvart þegar Gylfi Þór Sigurðsson var á meðal varamanna Everton, gegn West Ham um liðna helgi. Gylfi eins og fleiri leikmenn Everton hafði ekki spilað vel, Marco Silva, stjóri Everton fór í breytingar.
Everton vann 2-0 sigur á West Ham en Gylfi kom inn af bekknum og skoraði geggjað mark undir lok leiksins.
Guðmundur Hilmarsson, reynslubolti á Morgunblaðinu segir Gylfa ekki eiga heima á meðal varamanna.
,,Gylfi og Eiður Smári eru í 2. og 3. sæti yfir markahæstu Norðurlandabúana í ensku úrvalsdeildinni en sá markahæsti er Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, sem skoraði 91 mark fyrir Manchester United,“ skrifar Guðmundur í bakvörð Morgunblaðsins í dag.
,,Það sást vel þegar Gylfi skoraði móti West Ham að þungu fargi var létt af honum enda var hann að skora fyrsta mark sitt í deildinni á tímabilinu. Hann var settur á bekkinn fyrir leikinn en nýtti þær fáu mínútur sem hann fékk í botn. Ég trúi ekki öðru en að Marco Silva, stjóri Everton, skelli okkar manni beint inn í byrjunarliðið í leiknum gegn Brighton á laugardaginn.“
Guðmundur er á þeirri skoðun að Everton hafi bara ekki efni á því að hafa sinn dýrasta leikmann á bekknum. ,,Gylfi á ekki heima á varamannabekk Everton. Gæði hans eru ótvíræð og Everton hefur ekki efni á að spila án hans. Það er mín skoðun!“