

Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður íslenska landsliðsins er kröfuharður á sex stig í komandi verkefni, liðið mætir Moldóvu og Albaníu í undankeppni EM. Fyrri leikurinn er heima á laugardag og úti gegn Albaníu á þriðjudag.
Gylfi kemur inn í landsliðsverkefnið í góðu formi, hann hefur byrjað alla leiki Everton og var öflugur gegn Wolves um liðna helgi.
,,Já, allt annað en sex stig eru vonbrigði. Þetta er eins og í júní, við erum jafnir Frökkum og Tyrkjum með níu stig, þetta virðist fara fram í nóvember. Þetta eru leikir sem við viljum og eigum að vinna, þetta verður samt ekki auðvelt,“ sagði Gylfi.
Þegar Gylfi skoraði árið 2013 í Albaníu, þá fagnaði hann með því að rífa sig úr að ofan. Hann fékk skammir í hattinn frá Lars Lagerback, þá þjálfara liðsins. Hann fékk gult spjald fyrir fagnið.
,,Þetta verður mjög öðruvísi, við sáum það í júní að þeir eru nokkuð erfiðir. Ef ég verð í Under Armour bolnum þá fer ég örugglega úr honum.“
Viðtalið er í heild hér að neðan.