Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands og Freyr Alexandersson hafa valið leikmannahóp sinn fyrir komandi landsleiki gegn Moldóvu og Albaníu, í undankeppni EM.
Það vekur mikla athygli að reyndir menn eins og Birkir Már Sævarsson og Rúrik Gíslason eru ekki valdir. Þá eru Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason meiddir.
,,Þetta eru sex stig sem þarf að sækja, það er lítið svigrúm til að misstíga sig í þessum riðli. Þessar þjóðir sem eru að berjast um að fara áfram, það er ekki svigrúm fyrir mörg mistök,“ sagði Freyr þegar við ræddum málinn við hann eftir fundinn í dag.
Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson eru án félags, Freyr segir það ekki stór mál.
,,Ég horfi á mál Emils og Birkis þannig, að þeir eru í betra standi en í júní. Þeir voru báðir frábærir þá, ég hef ekki áhyggjur. Þetta er ekki besta staðan, þetta er meira fyrir þá að vera utan klúbbs. Þeir verða báðir með klúbb innan fárra daga, við settum ekki pressu á þá ná í klúbb fyrir verkefnið. Það er meira að þeir velji rétt.“
Alfreð Finnbogason lék með Augsburg síðustu helgi en er ekki klár í að koma í verkefnið.
,,Við vorum að vona að Alfreð gæti verið með, staðan er þannig. Þetta er búið að taka mikinn tíma, hann var lengi frá. Hann þarf meiri tíma í að byggja sig upp til að geta nýst okkur og Augsburg.“
Alfreð fórnaði sér hálf meiddur í verkefni með landsliðinu í mars, Augsburg var ekki ánægt með það.
,,Þeir voru ekki ánægir með það, við líka að ákveðnu leyti eftir á. Hvort það hafi haft áhrif á ákvörðunina núna veit ég ekki, það kom hins vegar til tals hjá okkur. Hann er ekki alveg í formi, við erum með framherja sem eru í standi. Vonandi náum við að klára þetta án hans, þá er þetta frábær ákvörðun.“
Kolbeinn Sigþórsson er að komast í sitt besta form með AIK, því fagnar Freyr.
,,Þetta er frábært, þetta er það sem við vorum að vonast eftir. Við vissum ekki hvernig þetta myndi fara, öll vissum við hvað Kolbeinn getur. Við vitum að það hjálpaði til að velja hann, að hann fengi samning í Stokkhólmi. Hann er kominn í hrottalegt stand, það er frábært að hann sé klár í þetta verkefni. 7, 9, 13, það er leikur á sunnudaginn.“
,,Hann er að spila 60-70 mínútur oftast, kominn með tvær 90 mínútur. Það er meðvitað hjá AIK, þeir eiga að fá hrós fyrir að gera þetta svona. Koma honum í gang, Kolbeinn er búinn að stíga niður á réttum tíma.“
,,Það munar hrikalegu miklu að fá fullan völl, það ýtir liðinu yfir hjallana.“