Ef þú áttir slæman dag í gær, þá ætti það að hugga þig að lesa um daginn sem Moestafa El Kabir leikmaður Çaykur Rizespor átti.
Çaykur Rizespor er í úrvalsdeildinni í Tyrklandi og átti leik gegn Sivasspor í gær.
El Kabir byrjaði á því að missa af rútu liðsins á völlinn, hann hafði gleymst á æfingasvæðinu þar sem liðið dvaldi fyrir leikinn.
Hann þurfti því að taka leigubíl á völlinn, þegar þangað var komið var El Kabir ekki hleypt inn á völlinn. Hann þurfti að bíða fyrir utan völlinn, þangað til þjálfari hans mætti og náði að koma honum inn.
Þessi þrítugi leikmaður byrjaði svo leikinn, leikurinn var svo 13 mínútna gamall þegar El Kabir var borinn af velli. Hann fótbrotnaði og verður frá næstu sex mánuðina. Ömurlegur sunnudagur.