Barcelona fór langt með að tryggja sér spænska meistaratitilinn um helgina eftir leik við Atletico Madrid. Atletico spilaði manni færri frá 28. mínútu er Diego Costa fékk að líta beint rautt spjald.
Staðan var markalaus þar til á 85. mínútu er Luis Suarez kom heimamönnum yfir. Tveimur mínútum síðar skoraði Lionel Messi svo annað mark Börsunga og 2-0 sigur staðreynd. Barcelona er nú með 11 stiga forskot á toppi deildarinnar og er í afar þægilegri stöðu. Jesus Gil Manzano, dómari leiksins hefur nú skilað skýrslu sinni frá leiknum og þar staðfestir hann orðróminn um rauða spjald Costa. Það var heldur betur verðskuldað.
Costa hafði gerst brotlegur og dæmdi Manzao leikbrot, það var hins vegar orðbragð Costa í kjölfarið sem var ástæðan fyrir rauða spjaldinu. ,,Ég skeit á hóruna hana mömmu þína, ég skeit á hana,“ öskraði Costa á dómarann en þetta kemur fram í skýrslu dómarans.
Costa greip síðan í dómarann þegar rauða spjaldið var farið á loft. Nú er búið að dæma í málinu og fékk Costa 8 leikja bann.