Jón Ragnar Jónsson hefur verið einn vinsælast söngvari og skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár. Jón var einnig öflugur knattspyrnumaður á sínum yngri árum en lagði skóna á hilluna fyrir nokkrum árum.
Jón Ragnar lék lengst af með FH, uppeldisfélagi sínu þar sem hann gerði vel. Jón er iðulega í góðu skapi og geislar oft af honum en þegar kemur að íþróttum er keppnisskapið mikið.
Hann fer ítarlega yfir hlutina í Milliveginum, hlaðvarpsþætti sem Bergsveinn Ólafsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson stýra.
,,Þetta var stundum smá basl,“ sagði Jón Ragnar um keppnisskapið og íþróttir. „Það er frekar fyndið með þetta keppnisskap, því það er frekar mikið hjá mér. Í fótboltanum reyndi maður alltaf að þakka fyrir leikinn, maður þarf að kunna að tapa.“
Það var hins vegar á öðrum vígstöðvum sem Jón missti stundum stjórn á skapi sínu, eitt sinn íhugaði hann að hrækja á Kára Ársælsson, sem var fyrirliði Íslandsmeistara Breiðabliks árið 2010.
„Svo á maður einhverjar minningar úr leikfimi í Verzló bara, þar sem þetta skiptir engu máli. Þar sem maður er að urða yfir einhvern, Kári Ársælsson, góður vinur minn. Einn daginn vorum við á sparkvellinum og ég ætlaði að hrækja framan í hann, eitthvað svona kjaftæði.“
Jón spilar fótbolta með vinum sínum reglulega og þar getur honum orðið heitt í hamsi.
,,Ég var í síðasta mánudagsbolta, ég labbaði bara beint út. Ég fattaði svo að ég var ekki á bil, því að Björn Bragi hafði náð í mig. Ég þurfti að bíða frammi, því ég ætlaði ekki aftur inn. Keppnisskapið hefur alltaf verið og verður alltaf, maður þarf að kunna að nota það á réttan hátt.“
,,Í stað þess að urða yfir einhvern dómara eða svekkja sig á einhverju, á maður nýta það í auka keyrslu. Maður var farinn að nýta það þannig, vinna tæklinguna eða hlaupa meira en hinn. Ég hugsa oft um þetta fyrir golfara. Maður er algjör nýliði í golfi og á eitt lélegt högg og liggur við kastar settinu út í læk, þetta lið þarf að vera með hausinn í fjóra daga í viku í lagi. Þvílíkt dæmi að vera pæla og vera róleg.“
Jón rifjar upp erfiða stund á knattspyrnuferli sínum þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari árið 2014, liðið vann þá FH í hreinum úrslitaleik þar sem FH-ingar voru ósáttir með dómgæsluna í leiknum. Það sat í Jóni sem gat þó ekki verið að velta sér of mikið upp úr hlutunum með nýfædda dóttur.
,,Þetta var basl oft, ósanngjarnt gagnvart Hafdísi (Eiginkonu Jóns) þegar maður kom með þetta heim. Þetta situr oft í manni, eins og þetta blessaða dæmi 2014 með Stjörnuna. Þetta var mitt stærsta tímabil varðandi spiltíma og ábyrgð, þetta hefði mátt sanngjarnara án þess að fara í smáatriði. Eftir á hugsa ég að þetta hafi farið djúpt í sálina á mér, hræðilegt dæmi. Ég held ég hafi sleppt því að hreyfa mig í tvo mánuði, ég var nánast í þunglyndi, ég átti ný fædda dóttur og hún gladdi mig líka.“
Jón viðurkennir í viðtalinu að hann hafi þurft þolinmæði í fótboltanum, hann var mikið á bekknum framan af ferli sínum.
,,Þolinmæði, það eru allt of margir dúddar sem finnst þeir eiga að fá sénsinn á 0,1 og þá er hausinn farinn. Ég áttaði mig á mínum styrkleikum og veikleikum, vissi að ég væri ekki bestur í heimi en vissi að ég hefði eitthvað til brunns að bera. Ég var í góðum samskiptum við Heimi (Guðjónsson) sem var að þjálfa FH og náði að finna minn farveg, svo þegar kallið kom, þá þurfti maður að vera klár.
Viðtalið við Jón má heyra hér að neðan.