Mikil sorg ríkir í Vestmannaeyjum eftir að Kolbeinn Aron Arnarson, 29 ára gamall markvörður ÍBV í handbolta, féll frá.
Kolbeinn varð bráðkvaddur á heimili sínu, tíðindin sem bárust fólki á aðfangadag hafa sett svip sinn á jólahald í Vestmannaeyjum, mikil sorg ríkir enda var Kolbeinn vinur allra.
,,Kolbeinn Aron var einn af lykilmönnum í uppbyggingu og velgengni handboltans í Vestmannaeyjum undanfarin ár. Eftir að hafa æft og leikið með yngri flokkum ÍBV lék hann 17 ára gamall sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2006. Alls spilaði hann 279 leiki fyrir félagið, sem gerir hann að fjórða leikjahæsta leikmanni þess frá upphafi. Kolbeinn Aron átti stóran þátt í því er liðið varð eftirminnilega Íslandsmeistari í fyrsta skipti árið 2014 og bikarmeistari ári síðar,“ segir á heimasíðu ÍBV.
Ásamt því að vera öflugur í handbolta var Kolbeinn einnig öflugur markvörður í fótbolta þar sem hann lék lengi vel með KFS í neðri deildum. Oftar en ekki var hann einnig mættur á æfingar hjá ÍBV í fótbolta, þar sem hann stóð alltaf fyrir sínu.
,,Fráfall Kolbeins Arons er öllum sem þekktu hann mikið áfall. Hjá okkur sem vorum með honum í handboltanum situr eftir sorg og söknuður; þakklæti og virðing,“ segir á heimasíðu ÍBV.
Fjölskylda Kolbeins Arons vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa sýnt henni samhug og stuðning þessa erfiðu daga.