Samtök leikmanna buðu DBU að framlengja núverandi samning til næstu mánaðarmóta svo hægt væri að spila þá tvo leiki sem eru á dagskrá á næstu dögum en DBU hafnaði því boði og sagðist líta svo á að leikmennirnir hefðu afboðað sig. Nú er DBU að taka stöðuna hjá liðunum í dönsku deildinni til að kanna hvaða leikmenn eru á lausu og geti hugsanlega spilað landsleikina tvo.
Mikið er í húfi því ef Danir mæta ekki til leiks er hætt við að þeim verði vísað úr keppni, bæði í Þjóðadeildinni og undankeppni EM. Ef svo fer verður það dýpsta lægð danskrar knattspyrnu undanfarna áratugi.
Á síðasta ári voru samskonar deilur á milli DBU og samtaka leikmanna kvennalandsliðsins. Það endaði með að Danir gátu ekki mætt til leiks á móti Svíum í undankeppni HM. Þóttu Danir heppnir að sleppa við að vera vísað úr undankeppninni en Svíum var dæmdur 3-0 sigur í leiknum.