Andreas Christensen, varnarmaður Chelsea hefur unnið sér inn fast sæti í byrjunarliði liðsins á þessari leiktíð.
Hann hefur sýnt lipra spretti með liðinu en gerði sig sekan um ansi slæm mistök í 1-1 jafntefli Chelsea gegn Barcelona í Meistaradeildinni í vikunni.
Þrátt fyrir það hefur Antonio Conte, stjóri mikla trú á þessum danska varnarmanni.
„Ég er ekki að hugsa um mistökin sem hann gerði, það gera allir mistök. Ef ég ætti að telja upp öll mín mistök á ferlinum þá þyrfti ég að sitja hérna í allan dag,“ sagði Conte.
„Hann er að eiga frábært tímabil og hann hefur þroskast mikið sem leikmaður. Hann stóð sig mjög vel í þessum leik og spilaði nánast óaðfinnanlega.“
„Ég treysti honum, hann er ungur og á ýmislegt eftir ólært en hann er framtíð þessa félags. Hann gæti orðið fyrirliði félagsins einn daginn,“ sagði hann að lokum.