Olivier Giroud, framherji Arsenal mun ekki ganga til liðs við Borussia Dortmund en það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
Framherjinn hefur verið sterklega orðaður við þýska félagið að undanförnu en hann hefur ekki átt fast sæti í liði Arsenal á leiktíðinni.
Giroud hefur verið að hugsa sér til hreyfings en hann vill spila meira til þess að komast með Frökkum á HM í Rússlandi.
Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Dortmund er sterklega orðaður við Arsenal þessa dagana en enska félagið hefur nú þegar lagt fram þrjú tilboð í hann.
Þrátt fyrir að Giroud fari ekki til Þýskalands þá reikna enskir miðlar með því að Aubameyang muni ganga til liðs við Arsenal áður en glugginn lokar.