fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Réttlætið er skrýtin skepna

Bryndís Schram skrifar um Efa- dæmisögu, eftir John Patrick Shanley,

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 18. janúar 2018 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Bryndís Schram

Leikritið gerist í kaþólskri kirkju heilags Nikulásar og skóla, sem kirkjan starfrækir í Bronx, New York, árið 1964. Það er best að segja það strax: Efi – dæmisaga, eftir írsk-ameríska leikskáldið John Patrick Shanley, er ísmeygilega flott leikhúsverk. Leikhús eins og það gerist best, á okkar dögum, alla vega. Viðfangsefnið er verðugt og áleitið. Það er knúið á um afstöðu, án þess þó að þröngva fyrirfram gefinni niðurstöðu upp á áhorfendur. Og rökræðan heldur áfram að lokinni sýningu. Þegar við þetta bætist stjörnuleikur – þótt Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í hlutverki hinnar kaþólsku nunnu og skólastýru fari þar fremst meðal jafningja – verður ekki mikið betur gert.

Réttlæti og umburðarlyndi

Efinn er upphaf frjórrar hugsunar. Að véfengja venjuviskuna – hin viðteknu gildi – það er upphaf nýrra tíma. En það er ekki allt sem sýnist. Ef efinn leiðir til lamandi afskiptaleysis frammi fyrir ranglætinu, þá gerir efahyggjan þig samseka(n). Það eru ekki einasta gerðir hinna illviljuðu, heldur ekki síður aðgerðarleysi hinna velviljuðu, sem er bölvaldur mannkynsins. ISIS í Sýrlandi og á sjónvarpsskjánum fyrir framan þig. Hitler og Stalín á tímum foreldra okkar. Trúarofstækið, sem kyndir undir hatrinu og útrýmir umburðarlyndinu og skilur eftir sig sviðna jörð í gervallri sögunni.

Þessi saga gerist í Bronx – fátækrahverfi írsk-ítalskra innflytjenda í New York – undir andlegu tyftunarvaldi kaþólsku kirkjunnar. Og um hvað er þetta? Meðal annars um það, hvort sjálf réttlætiskenndin getur leitt ófyrirséða ógæfu yfir þá, sem fyrir henni verða, ef umburðarlyndið er ekki með í för.

Efi-dæmisaga var fyrst sett á svið árið 2004 í New York. Á sama tíma og Þjóðleikhúsið býður upp á Efann, setur Borgarleikhúsið á svið 2500 ára gamlan grískan harmleik, Medeu. Þar er líka fjallað um uppreisn gegn ríkjandi valdi og hyldýpi mannlegra tilfinninga. Þessar tvær leiksýningar eiga það sameiginlegt, þótt meira en tvö árþúsund skilji í milli, að þær vekja upp áleitnar spurningar um la condition humaine. Höfum við nokkuð lært á þessari löngu leið.

Mynd: Hordur Sveinsson

Skynsemin var höfuðsök

Af hverju var Sókrates dæmdur til dauða og byrlað eitur á sinni tíð? Almennur borgarafundur (lýðræði hinna frjálsbornu) fordæmdi hann fyrir að „spilla æskunni“. Honum var gefið að sök að véfengja viðtekin sannindi, sem reyndust einatt vera vanhugsaðir fordómar, þegar betur var að gáð. Skynsemin var talin vera höfuðsök í vöggu lýðræðisins, Aþenu. Nú á dögum væru kannski samfélagsmiðlar látnir duga.

Réttlætiskenndin segir okkur, að fátt sé jafn skilyrðislaus skylda okkar og að vernda varnarlaust barn fyrir hugsanlegu ofbeldi þeirra, sem falið er að annast það. En hvað ef það kostar að eyðileggja mannorð saklauss manns? Grunurinn verður gómsætur í munni Gróu á Leiti. Ein fjöður verður að heilli hænu í seinni tíma dæmisögu. Hvort tveggja óafturkallanlegt. Meira segi ég ekki um söguþráðinn. En sögulokin ættu að verða okkur öllum umhugsunarefni, enda eftir því leitað í samtíð okkar og umhverfi í núinu.

Hingað til höfum við haldið, að til þess væru sjálfstæðir dómstólar – stofnanir réttarríkisins – að útkljá slík mál. Réttlætisgyðjan er með bundið fyrir augun á marmarastyttum fortíðar til þess að okkur megi ljóst vera, að hún er engu og engum háð – nema sannleikanum. Hún dæmir ekki út frá grunsemdum – heldur staðreyndum, sem leiddar eru fram í dagsljósið með vitnaleiðslu. Þegar það bregst, er það kallað réttarmorð.

Hárbeitt ádeila

Eins og fyrr segir, er sögusviðið samfélag írsk-ítalskra innflytjenda í New York undir andlegri handleiðslu kaþólsku kirkjunnar. Þetta er „rétttrúnaðarkirkja“, sem boðar stranga trú og siðavendni. Samt er kirkjan uppvís að því, að í skjóli hennar hefur lengi þrifist kynferðisleg áreitni og misnotkun á börnum í stórum stíl. Viðbrögðin voru lengst af yfirhylming og þöggun í skjóli valds. Það er hægara að prédika boðorðin en að breyta eftir þeim. Í þeirri siðferðilegu tvöfeldni dafnar gróðrarstía hræsninnar.

En eftir því sem múrar þagnarinnar hafa hrunið hver af öðrum, er „samfélaginu sjálfu farið að svipa æ meir til réttarsalar“, segir höfundur um Ameríku samtímans. Og hann bætir við:
„Hér áður fyrr var frægðin aðalatriðið, en það er liðin tíð. Nú höfum við bara áhuga á frægu fólki, ef það er komið í réttarsal. Menning okkar einkennist af öfgakenndum málflutningi, átökum, dómum og úrskurðum. Skoðanaskipti hafa vikið fyrir kappræðu. Samskipti eru orðin keppni um að hafa betur. Samfélagsumræðan er orðin ógeðfelld og hræsnisfull. Hvers vegna?“ – Því fer fjarri, að höfundurinn hafi haldbær svör á reiðum höndum. En hann brýnir fyrir okkur, að efinn getur forðað okkur frá að verða leiksoppar lyginnar.

„Það er erfitt skeið, þegar trú manneskju er byrjuð að dvína, en hræsnin hefur ekki enn tekið við, þegar róti hefur verið komið á vitundina, en hún hefur enn ekki breyst. Þetta er hættulegasta og mikilvægasta reynsla lífsins, og fólk er stöðugt að verða fyrir henni. Upphaf allra breytinga er stund Efans. Það er örlagastundin, þar sem ég endurnýja mennsku mína eða verð eitt með lyginni. Og efinn útheimtir meira hugrekki en
sannfæringin.“ Svo mælir John Patrick Shanley.

Niðurstaða: Leikhús eins og það gerist best. Vekur okkur til ærlegrar hugsunar um áleitin og umdeild samfélagsmál. Hárbeitt ádeila, hnitmiðuð umræða og eftirminnilegur stjörnuleikur. Fullt hús stiga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 klukkutímum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“