fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Einar Kárason: Innrásin á Normandí

Kvikmyndin Dunkirk og merkileg kenning um lýðveldisstofnun Íslendinga

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 19. ágúst 2017 20:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason rithöfundur skrifar:

Þegar seinni heimsstyrjöldin stóð enn sem hæst stofnuðu Íslendingar lýðveldi á Þingvöllum eins og allir vita. Lýðveldisstofnunina virðist sumpart hafa borið nokkuð hratt að; það hafði að vísu verið vitað frá því Sambandslagasamningurinn við Dani var undirritaður árið 1918 að honum mætti segja upp 1943, að 25 árum liðnum. En hafa verður í huga að Ísland var hernumið árið 1940; í fyrsta sinn í sögu landsins tók erlendur innrásarher hér öll völd og líklega hefur þjóðin aldrei verið minna frjáls og óháð en einmitt eftir þá aðgerð, svo að flestir hafa trúlega hugsað þá að næsta skref mætti stíga þegar hersetunni linnti í stríðslok.

Það merkilega er að samkvæmt skjölum og gögnum og rannsóknum sagnfræðinga er eins og Bandaríkjamenn hafi haft einhvers konar frumkvæði að því sem gerðist hér á landi og að æðstu embættismenn, jafnvel sjálfur Roosevelt forseti, hafi látið sig málið varða. Með það í huga að Bandaríkin voru þá í harðasta stríði í sinni sögu, með átökum bæði í Evrópu og á Kyrrahafi, þá má í fljótu bragði teljast með ólíkindum að ráðamenn þar væru að eyða tíma í að gefa gaum svona lítilsverðu atriði eins og þjóðhöfðingjamálum örríkis; að ólíkar þjóðir væru með sama þjóðhöfðingjann eins og raunin var með Íslendinga og Dani var auðvitað algengt og þykir ekki stórvægilegt mál; þannig hafa til dæmis Kanada og Ástralía Bretadrottningu, eða konung þegar svo ber undir, sem sinn þjóðhöfðingja, og efast þó enginn um að þetta séu sjálfstæð og fullvalda ríki.

En nú á dögunum rifjaðist upp fyrir mér kenning sem ég heyrði eitt sinn sagnfræðing viðra þar sem við sátum með fleirum við borð í kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar, og ég ætla sjálfur að færa í tal undir lok þessa pistils.

Maður er á staðnum

Þessi málefni komu mér semsé í hug er ég sá fyrir skemmstu stórmyndina Dunkirk, sem segir frá flótta eða björgun breskra og franskra hermanna frá vesturströnd Frakklands, rétt sunnan við belgísku landamærin. Myndin fannst mér afar áhrifarík; ég hef heyrt þá gagnrýni á hana að persónusköpun sé þar lítil og veik, en höfuðkostur kvikmyndarinnar fannst mér vera að hún miðlaði næstum þeirri tilfinningu að maður væri sjálfur á staðnum, mitt í allri skelfingunni, ringulreiðinni og yfirvofandi ógn.

Með þessum flótta misstu Bretar og Vesturveldin alla fótfestu á meginlandi Evrópu og gátu næstu fjögur árin einungis reynt að herja á herstyrk Þjóðverja og öxulveldanna úr lofti og á sjó. Ári eftir flóttann frá Dunkirk réðust svo Þjóðverjar inn í Sovétríkin og barist var næstu árin á ógnarlangri víglínu austurvígstöðvanna. Og það var eins og allir vita ekki fyrr en í júní 1944 sem Vesturveldin komust á ný inn á meginlandið með árásinni á Normandí, á svipuðum slóðum og þaðan sem bresku og frönsku hersveitirnar hröktust burt á flótta eins og segir frá í kvikmyndinni sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Saklausir amerískir unglingar í fremstu víglínu

Það er auðvitað alkunna hversu ægilegur hildarleikur innrásin á Normandí var, enda trúlega stærsta hernaðaraðgerð mannkynssögunnar, og það hefur einnig stundum verið dregið upp í kvikmyndum, eins og Spielberg gerði í Saving Private Ryan. Ég las ekki fyrir löngu bók um þessi átök eftir breska sagnfræðinginn Antony Beevor, en hún heitir D-day, eins og innrásardagurinn 6. júní 1944 var kallaður. Beevor er einn helsti sérfræðingurinn um styrjaldarárin og að minnsta kosti tvær af bókum hans hafa komið út í íslenskri þýðingu, Stalíngrad og Fall Berlínar 1945 – Beevor hefur einnig komið hingað til lands og ég sótti eitt sinn fyrirlestur hans og spjall við Jón Þ. Þór í hátíðarsal Háskólans.

Á köflum er bók Beevors um Normandíinnrásina mögnuð lesning. Í kvikmynd Spielbergs má sjá hversu miklum hryllingi fyrstu innrásarhermennirnir mættu er þeir ösluðu upp á Frakklandsströndina, eiginlega út í opinn dauðan á móti risastórum og ógnarmörgum byssukjöftum Þjóðverja. Beevor segir þó að þeir sem fyrstir stigu á land hafi á einhvern hátt verið undirbúnir undir sitt verkefni, eftir að hafa verið á þrotlausum innrásaræfingum á Bretlandi. Staða þeirra sem hafi verið sendir til að fylla skarð þeirra föllnu hafi samt eiginlega verið ennþá verri. Beevor segir: „Ameríska hernaðarskrifræðið meðhöndlaði þessar uppfyllingar með ruddalegum skorti á hugmyndaflugi.“ Það sem ég þýði hér sem uppfylling, í leit að betra orði, var þá kallað á ensku „replacement“ sem eins og Beevor segir felur í sér að menn séu beinlínis settir í dauðs manns skó; vegna þess hvað það hljómaði illa var upp úr þessu farið að nota í staðinn orðið „reinforcement“ eða styrking.

En hann segir að vandinn hafi samt verið óleystur, því að nýju hermennirnir hafi verið lítt þjálfaðir og algerlega óundirbúnir fyrir það sem beið þeirra. Einn af yfirmönnum hersins orðaði það síðar þannig að þessir yngri menn hafi ekki verið raunverulegir hermenn, heldur of ungir til að drepa og of linir til að afbera harðneskju vígstöðvanna. Þetta voru gjarnan unglingsstrákar sem höfðu til þessa lifað í gleði og öryggi í foreldrahúsum eða framhaldsskólum, svona kúlutyggjóunglingar, en voru svo allt í einu komnir í fremstu víglínu þar sem kúlur hvinu og sprengjur sprungu og menn voru strádrepnir allt í kring. Þúsundir af þeim féllu vegna þess að í ofsahræðslu brugðust þeir rangt við; köstuðu sér til jarðar þegar þeir áttu að hlaupa, og annað í þeim dúr. Sumir hoppuðu ofan í gamla sprengjugíga til að leita skjóls en Þjóðverjarnir kunnu ýmis trix og höfðu gjarnan verið búnir að setja jarðsprengju á botn sprengjugíganna svo að menn flugu jafn hratt upp úr þeim aftur. Fjöldinn allur af nýliðum fékk alvarlegt taugaáfall fljótt eftir að á vígstöðvarnar var komið og það var mikið verkefni fyrir lækna og hjúkrunarlið að reyna að koma þeim í stand á ný svo þeir yrðu nýtanlegir á vígvellinum, en haft var eftir einum af yfirmönnum hersins að drengir sem tvisvar hefðu fengið taugaáfall væru þar með orðnir með öllu gagnslausir sem hermenn.

Merkilegt var einnig að lesa í þessari bók Antonys Beevor að það var munur á þeim unglingum sem komu úr sveitahéruðum Bandaríkjanna og hinum sem komu beint úr borgunum; sveitadrengirnir virtust vera úrræðabetri og á einhvern hátt kunna betur við sig þarna á blóðvöllum Frakklands, höfðu til dæmis vit á því ef þeir gengu fram á kú að mjólka hana í hjálminn sinn.

Meðan á þessu gekk voru þúsundir amerískra hermanna jafnframt að falla eða örkumlast í stríðinu við Japani. Áhrifamesta kvikmynd sem ég hef séð um Kyrrahafsstríðið heitir The Thin Red Line og hana gerði Terrence Malick eftir samnefndri skáldsögu James Jones, sem sjálfur upplifði þann hrylling sem amerísk ungmenni gengu í gegnum á blóðvöllunum þar.

En á meðan öllu þessu gekk gáfu Bandaríkjaforseti og aðrir hátt settir menn þar vestra sér samt tíma til að gefa því gaum hvort Ísland væri lýðveldi eða ekki; það var í fljótu bragði málefni sem varla gat vakið áhuga nokkurs manns á svo viðsjárverðum tímum, nema hvað það snerti auðvitað metnað hinna fáu innbyggjara þessarar friðsælu eyju.

Rússar gætu hugsanlega yfirbugað Þjóðverja í Danmörku

Eftir að sýnt var að innrásin í Normandí hefði lánast og vestrænir Bandamenn tóku að sækja inn í Frakkland fór allt að benda til þess, eins og raunin varð, að Þjóðverjar og öxulveldin myndu tapa stríðinu, þótt áfram væri gífurlega hart barist jafnt á austur- sem vesturvígstöðvunum og í Kyrrahafi og víðar. Og jafnframt var ljóst að Þýskaland yrði þá yfirbugað þannig að Sovétmenn myndu sækja inn í landið úr norðaustri, en Bandaríkjamenn, Bretar og fleiri myndu herja á landið úr suðvestri. Það sem ekki var vitað var hversu langt hvorir myndu ná á undan hinum, hvort það yrðu Vesturveldin sem til að mynda næðu fyrr til Berlínar, eða Sovétmenn eins og raunin varð. Sú sviðsmynd var mjög möguleg og jafnvel líkleg að Sovétmenn næðu mestallri Eystrasaltsströnd Þýskalands, eins og reyndar gerðist, og næðu þeir henni og allt til Norðursjávar myndi þeim líklega reynast létt verk að yfirbuga hernámslið Þjóðverja í Danmörku og hernema hana þar með.

Yrði það svo að Sovétmenn hernæmu Danmörku gæti svo farið að þeir teldu sig hafa réttmætt tilkall til áhrifa í öllu danska konungsríkinu, þar með talið á Íslandi. Ég hef heyrt sagnfræðinga og aðra fróða um heimspólitík viðra þær efasemdir að Bandaríkjastjórn hefði aldrei tekið það í mál að eyjar Norður-Atlantshafsins kæmust undir einhver sovésk áhrif, og það getur vel verið rétt. En vert er þess að minnast að þarna þegar seinni heimsstyrjöldin var í fullum gangi voru Bandaríkin og Sovétríkin bandamenn, og ljóst var orðið þegar lýðveldi var stofnað á Íslandi, ellefu dögum eftir D-daginn, að stórveldin myndu þurfa að semja í stríðslok um heimsskipan og áhrifasvæði, og þá gat verið gott að vera búið að taka Ísland á einhvern hátt út úr breytunni. Eins og með því að láta rjúfa öll tengsl við Danmörku, sem hugsanlega myndi lenda undir hernaðarhrammi rússneska bjarnarins.

Ég sé í það minnsta enga aðra líklega skýringu á því hvers vegna stórveldi sem veður blóði í miðri alheimsstyrjöld fer að kveikja áhuga að svo lítilvægu metnaðarmáli einhvers örríkis norðan við stríð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“