Sjónvarpsþættir sem hafa bókstaflega bjargað lífi fólks

The Walking Dead, Curb Your Enthusiasm og fleiri

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 3. október 2017 23:50

Það er stundum sagt að sjónvarpsgláp sé dauðans alvara. Það geri engum gott að sitja fyrir framan sjónvarpið heilu og hálfu dagana. Þó að of mikið sjónvarpsáhorf sé ekki af því góða verður ekki litið framhjá því að sjónvarpsþættir hafa bjargað lífi fólks í bókstaflegri merkingu. Hér eru nokkur dæmi.


The Walking Dead

Eitt sinn var maður að nafni Kevin Sutton staddur fyrir utan verslun Best Buy. Sutton þessi hafði ákveðið að tjalda skammt frá versluninni, meðal annars til að vekja athygli á málefnum heimilislausra í Orlando í Flórída. Skyndilega heyrði hann rifrildi og áður en hann vissi af kom hann auga á tvo menn í handalögmálum. Slagsmálin enduðu þannig að annar mannanna tók upp byssu og skaut hinn í kviðinn. „Hann byrjaði að hristast og skjálfa og taldi að nú væru endalokin runnin upp,“ sagði Sutton eitt sinn í viðtali. Sutton beitti skyndihjálp en svo vill til að hann hafði lært tökin með áhorfi á The Walking Dead.


Svampur Sveinsson

Svampur Sveinsson, eða Spongebob Squarepants eins og hann heitir á ensku, er í uppáhaldi hjá mörgum. Árið 2015 tók þrettán ára piltur með einhverfu, Brandon Williams, eftir því að bekkjarsystir hans, Jessica Pellegrino, ætti í erfiðleikum með að anda. Epli reyndist standa í henni og brást Williams hárrétt við og notaði Heimlich-aðferðina. Þessa aðferð lærði hann í umræddum þætti.


The Simpsons

Það eru fleiri teiknimyndaþættir en Spongebob Squarepants sem hafa bjargað mannslífum. Líkt og í tilviki Svamps kom Heimlich-takið við sögu í einum Simpsons-þætti í þriðju seríunni. Sjá má skýringarmynd af aðferðinni á plakati sem hangir í kjarnorkuverksmiðjunni sem Homer vinnur hjá. Simpsons-aðdáandinn Aiden Batemen hafði ekki gleymt myndinni þegar matur stóð í vini hans, Alex að nafni. Batemen beitti aðferðinni með góðum árangri.


Curb Your Enthusiasm

Þessi sígildu þættir með Larry David nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Þættirnir virðist einnig hafa forðað einum ákveðnum manni frá því að lenda á dauðadeild. Þannig er mál með vexti að árið 2003 var maður að nafni Juan Catalan handtekinn grunaður um morð. Catalan hafði ekki alltaf verið barnanna bestur og hafði hann komist í kast við lögin vegna innbrota. Morðið sem Catalan var sakaður um að hafa framið var á konu einni sem bar vitni í dómsmáli sem höfðað var gegn honum og nokkrum öðrum fyrir fyrrgreind innbrot.

Catalan lýsti sig saklausan, hann hefði aldrei drepið neinn og myndi aldrei gera. Lögregla trúði honum ekki og virtist harðákveðin í að klína sökinni á hann. Síðar kom á daginn að Catalan var á leik með Los Angeles Dodgers í bandarísku Major League-deildinni í hafnarbolta akkúrat á þeim tíma sem morðið var framið. En hvernig gat hann sannað það? Jú, lögmaður hans fór á stúfana og komst að því að tökulið á vegum Curb Your Enthusiasm var á umræddum leik þar sem tökur stóðu yfir á þættinum. Lögmaður Catalan bað um að fá að skoða myndefnið sem tekið var upp á leiknum. Þótt ótrúlegt megi virðast sást Catalan á einni upptökunni þar sem hann hámaði í sig pylsu ásamt dóttur sinni. Svo fór að málið gegn honum var fellt niður. Áhugasamir geta kynnt sér þessa sögu betur í heimildarmyndinni The Longshot sem nýverið var frumsýnd á Netflix.


House

Þættirnir um ævintýri Dr. House, með Hugh Laurie í aðalhlutverki, nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Áhorfendur fengu að sjá sjúklinga með allskonar sjúkdóma og stórfurðuleg einkenni. Þættirnir voru ofarlega í huga Þjóðverja eins þegar hann fór til læknis. Maðurinn kvartaði undan hita, svima og þá var bæði heyrn hans og sjón orðin skert af einhverjum ástæðum. Læknar virtust ráðþrota en ekki Dr. Juergen Shaefer sem vissi strax hvað var að. Hann hafði séð sambærileg einkenni í þætti af House og taldi að um væri að ræða eitrun af völdum kóbalts. Maðurinn hafði nokkrum árum áður gengist undir aðgerð þegar stálplötu var komið fyrir í mjöðminni. Platan var gölluð og fór að leka sem gerði það að verkum að maðurinn veiktist.


Survivorman

Árið 2013 freistuðu tveir ástralskir bræður þess að klífa Albert Edward-fjall á Vancouver-eyju. Bræðurnir lentu í slæmu veðri og villtust af leið. Mönnunum til happs höfðu þeir horft á Survivorman, en um er að ræða þætti þar sem fólk þarf að sýna kænsku til að lifa af úti í óbyggðum. Þeir smíðuðu lítið neyðarskýli, hjúfruðu sig upp að hvor öðrum og biðu rólegir eftir björgun. Mennirnir sögðust hafa beitt þeim aðferðum sem kenndar voru í Survivorman.


X-Factor

Simon Cowell getur stundum verið leiðinlegur en hann er hreinskilinn og segir það sem hann hugsar. Kannski að það hafi bjargað einum þátttakanda að nafni Jacqui Gray. Árið 2007 kom Jacqui í áheyrnarprufu. Simon sagði við hana að hún væri með mjög skrýtna rödd. Það væri í raun eins og hún væri með eitthvað í hálsinum þegar hún söng. Cowell og meðdómari hans, Sharon Osbourne, ráðlögðu henni að fara til læknis sem hún og gerði. Læknir greindi hana með berkjuskúlk (e. bronchiectasis) en um er að ræða lungnasjúkdóm sem getur dregið fólk til dauða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma

Hvað segja stuðningsmenn Íslands í Hljómskálagarðinum eftir tapið? Bein útsending

Hvað segja stuðningsmenn Íslands í Hljómskálagarðinum eftir tapið? Bein útsending
433
Fyrir 2 klukkutímum

Sjáðu sérstaka landsliðstreyju Ívars fyrir leik Íslands og Nígeríu

Sjáðu sérstaka landsliðstreyju Ívars fyrir leik Íslands og Nígeríu
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Sjáðu markið – Nígería komið yfir gegn Íslandi

Sjáðu markið – Nígería komið yfir gegn Íslandi
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Íslenskri konu dreymdi fyrir risastórum lottóvinningi

Íslenskri konu dreymdi fyrir risastórum lottóvinningi
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

„Ömurlegt að við séum að selja ómetanlegar náttúruperlur út úr landinu“

„Ömurlegt að við séum að selja ómetanlegar náttúruperlur út úr landinu“
Bleikt
Fyrir 4 klukkutímum

Móðir Jóhönnu er norn: „Mamma fór með mig til miðils sem lét loka á þessar óvelkomnu heimsóknir“

Móðir Jóhönnu er norn: „Mamma fór með mig til miðils sem lét loka á þessar óvelkomnu heimsóknir“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Byrjunarlið Íslands – Emil skellt á bekkinn og Jón Daði byrjar

Byrjunarlið Íslands – Emil skellt á bekkinn og Jón Daði byrjar