Um klukkan 21 höfðu lögreglumenn afskipti af ofurölvi 15 ára unglingi við verslunarmiðstöð í Kópavogi. Honum var ekið heim til foreldra sinna og barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um málið.
Ökumaður var handtekinn um klukkan 17 í gær hverfi 104. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna sem og að hafa ekið sviptur ökuréttindum og það ekki í fyrsta sinn.
Á áttunda tímanum var tilkynnt um innbrot í íbúð í miðborginni. Fartölvu og skartgripum var stolið.
Ölvaður maður var handtekinn við heilbrigðisstofnun í Bústaðahverfi á áttunda tímanum. Hann hafði fengið þá þjónustu sem hann þarfnaðist en vildi ekki yfirgefa staðinn. Hann var vistaður í fangageymslu.
Á áttunda tímanum var maður handtekinn í miðborginni en hann er grunaður um að hafa ógnað starfsmanni hótels með hnífi. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.
Á ellefta tímanum var ökumaður handtekinn í miðborginni grunaður um ölvun við akstur.
Á öðrum tímanum var annar ökumaður handtekinn í miðborginn en sá er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.
Á ellefta tímanum var ökumaður handtekinn í Garðabæ en sá er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis.
Um klukkan 21 í gærkvöldi hugðust lögreglumenn stöðva akstur bifreiðar í Breiðholti. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum, ók inn á bifreiðastæði við fjölbýlishús og reyndi að hlaupa inn í það en laganna verðir eru fótfráir og náðu honum og handtóku. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur, að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglunnar og að hafa ekið á ökuréttinda en hann er sviptur þeim.
Á fyrsta tímanum í nótt var kona handtekin í Kópavogi en hún var að brjótast inn í bifreið þar í bæ. Hún var vistuð í fangageymslu.
Á sjöunda tímanum í gær var ökumaður handtekinn í Kollafirði en hann er grunaður um ölvun við akstur. Klukkustund síðar var ökumaður handtekinn í Árbæjarhverfi en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna sem og vörslu fíkniefna.