Valgerður Reynisdóttir sem er 15 ára var við störf í Krónunni þegar hún mátti þola ótrúlegan dónaskap af eldri manni í versluninni. Valgerður segir að maðurinn hafi komið á afgreiðslukassann með vörur en ekki heilsað og látið eins og hún væri ekki til.
Ég sagði „góðan daginn“ og hann svaraði ekki,“ segir Valgerður og bætir við: „Svo þegar hann er að fara sagði ég: „Takk fyrir og eigðu góðan dag“. Strax í kjölfarið spurði Valgerður hvort það mætti bjóða manninum afritið. Þá svaraði hann loks og sagði á ensku:
„Not from you nigger“.
Valgerði var brugðið og kveðst hún hafa spurt manninn hvort hann hafi virkilega látið þessi orð falla. Maðurinn svaraði hins vegar ekki og stormaði út. Valgerður vakti athygli á málinu á Facebook en í samtali við DV segir hún að manninum verði meinaður inngangur í verslunina láti hann sjá sig.
Aðspurð hvort hún hafi lent í fordómum áður svarar hún:
„Svarið við því er bæði já og nei. Ég hef ekki lent í því að vera kölluð N-orðinu áður. Og það af einhverjum eldri manni sem ég þekki ekki.“
Valgerður er eins og áður segir 15 ára og hefur unnið í Krónunni frá því í sumar. Hún var tíu mánaða þegar hún kom til Íslands og lítur fyrst og fremst á sig sem Íslending.
„Ég hef aldrei lent í svona dónaskap,“ segir Valgerður og bætir við að sumir hér á landi mættu temja sér meiri kurteisi við afgreiðslufólk. Aðspurð hvernig henni hafi orðið við svarar hún að það hafi verið áfall að heyra þetta og leiðinlegt.
„Ég hef verið að kynna mér hvað þetta virkilega þýðir og besta lýsingin á þessu orði er þegar hvíti maðurinn, þegar þrældómurinn var í gangi, þá þýddi það, ég er betri en þú, ég er æðri en þú og þú ert undir mér. Ég tek því á þann hátt þegar fólk segir svona við mig.“
Valgerður vildi að Íslendingar myndu fræðast meira. Ísland sé ekki lengur fámenn þjóð, á Íslandi búi fólk frá öllum heimshornum nánast. Það sé því mikilvægt að sýna hvort öðru virðingu og kurteisi. Þá sé mikilvægt að spyrja og fræðast.
„Ef þú spyrð annað fólk færðu tækifæri á að læra svo mikið, um þjóð þeirra, menningu og hvernig eigi að sýna þeim umburðarlyndi,“ svarar Valgerður og bætir við að lokum:
„Þér hlýtur að líða mjög illa að þurfa að nota þetta orð. Ég vorkenndi strax þessum manni, að hafa svona hatur inni í sér en ég er ekki pirruð út í hann. Honum hlýtur að líða illa. Eitt það mikilvægasta sem við þurfum að gera á Íslandi er fræðsla og spyrja fólk.“