fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Fréttir

Maurar um borð hjá WOW til Montreal: „Við vorum beðin um að fara í sturtu um leið“

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 28. mars 2018 10:00

Farþegar urðu varir við maura í vélinni sem varð til þess að 3 klukkustunda töf varð við lendingu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta var afar einkennilegt. Við fengum ekki að taka neitt frá borði nema kreditkort, síma, spjaldtölvur og lyf,“ segir farþegi WOW air sem flaug með flugfélaginu frá Íslandi til Montreal í gær. Brottför vélarinnar frá Keflavíkurflugvelli tafðist aðeins vegna veðurs og ekki tók betra við þegar flugvélin lenti í Montreal. Farþegum var þá tilkynnt um að töf yrði á því að þeim yrði hleypt frá borði. „Við vorum í þrjá tíma föst í vélinni. Við fengum að vita það að einhverskonar maurar höfðu fundist um borð og síðan fylgdust við með áhöfninni taka sýni út um alla vél,“ segir farþeginn í símtali við DV.  Þar sem maurar séu ekki beint landlægir á Íslandi er líklegast að kvikindin hafi komist í vélina á öðrum áfangastað WOW air. „Við höfum ekki hugmynd um hvaðan vélin var að koma áður en henni var flogið til Montreal,“ segir farþeginn.

Að hans sögn héldu aðrir farþegar ró sinni þó að margir hafi óttast það að vélinni yrði flogið annað án þess að þeim yrði hleypt frá borði. „Það fór ekki illa um okkur. Flugstjórinn og áhöfnin héldu okkur upplýstum um stöðuna og okkur var boðið uppá vatn að drekka,“ segir farþeginn.

Allt skilið eftir

Þegar loks var tilkynnt um að farþegunum væri heimilt að fara frá borði var þeim skipað að skilja allan handfarangur eftir og aðeins taka með sér brýnustu nauðsynjar eins og áður segir. „Ég varð að skilja allan handfarangur eftir, til dæmis töskuna mína og hálsklút sem ég hafði með mér. Við fengum síðan þær upplýsingar að það stæði til að eitra fyrir þessum dýrum. Við vorum beðin um að fara í sturtu um leið og við kæmum á hótelið okkar. Við þurfum þó að fara í sömu fötin því við höfum ekki fengið farangurinn okkar enn þannig að ég veit ekki hvaða máli það skiptir,“ segir farþeginn.

Í skriflegu svari til DV segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, að nokkrir farþegar hafi orðið varir við maura um borð í vélinni.  „Flugstjórinn í fluginu lét flugvallaryfirvöld í Montreal vita af stöðu mála og tók starfsfólk flugvallarins og viðeigandi yfirvöld á móti flugvélinni við lendingu. Flugvélin var síðan meðhöndluð samkvæmt stöðluðu verkferli,“ segir Svanhvít.  Gert var ráð fyrir að flugvélin myndi lenda á Íslandi kringum miðnætti í kvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fjórir karlar og ein kona ákærð vegna stórfelldrar kannabisræktunar

Fjórir karlar og ein kona ákærð vegna stórfelldrar kannabisræktunar
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Óttast að nágranninn færi heita pottinn – „Er ég á einhvern hátt ósanngjarn ef ég vil ekki horfa á annað fólk baða sig af svölunum hjá mér?“

Óttast að nágranninn færi heita pottinn – „Er ég á einhvern hátt ósanngjarn ef ég vil ekki horfa á annað fólk baða sig af svölunum hjá mér?“