Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, að flestar konurnar og börnin hafi verið í athvarfinu öll jólin. Hún sagði að yfir árið sé það þannig að helmingur þeirra kvenna sem leita í athvarfið séu útlendar og að þær dvelji að jafnaði lengur í athvarfinu en íslensku konurnar og það eigi einnig við um jólin.
Börnin, sem dvöldu í Kvennaathvarfinu þessi jólin, voru allt frá unglingum niður í lítil börn.
Boðið var upp á kræsingar og glaðning fyrir alla þá sem dvöldu í athvarfinu og jólasveinninn leit inn á aðfangadag og gladdi fólk.