Óhætt er að segja á fólk skiptist í tvær fylkingar vegna jólagjafar Costco til starfsmanna sinna. Starfsmenn fengu 3.500 króna inneign hjá versluninni sem rennur út fljótlega á nýju ári.
Sitt sýnist hverjum um gjöfina; sumum finnst frábært að fyrirtæki gefi starfsfólki sínu á annað borð jólagjöf á meðan öðrum finnst gjöfin niðurlægjandi.
Fjörugar umræður um þetta fóru fram í Facebook-hópnum Costco – Gleði í gærkvöldi. Allt hófst þetta á innleggi frá Guðjóni nokkrum sem sagði einfaldlega: „Starfsfólk Costco fékk 3500 króna gjafabréf sem rennur út í febrúar næstkomandi.“
24 mínútum og 49 athugasemdum síðar var Guðjón búinn að loka fyrir athugasemdir við færsluna.
Eins og að framan greinir skiptist fólk í tvær fylkingar. Kristján segir til dæmis: „Mörg fyrirtæki gáfu starfsmönnum sínum enga jólagjöf?“ Björgvin og Bryndís taka í sama streng og segjast ekki hafa fengið neitt frá sínum vinnuveitanda. „Vona að þetta fólk sé þakklátt fyrir að fá eitthvað,“ bætir Bryndís við.
Þá segir Aðalbjörg að fyrirtæki séu ekki skyldug til að gefa jólagjafir. Þau séu skyldug til að greiða desemberuppbót en hitt sé valfrjálst.
Guðjón, sá sem hóf umræðurnar, blandar sér svo í þær og segir: Fyndist nú betra að gefa ekkert frekar en 3500 og það inneign.“ Svo benda einhverjir á hvað sé hægt að kaupa fyrir inneignina og kemur fólk með hugmyndir eins og 80 poppkornspoka eða 12 pylsur með gosi.
Ósk segir að þetta sé örugglega vel meint en um leið niðurlægjandi gjöf en Agnes höfðar til samvisku fólks. „Pls ekki vera að kvarta yfir einhverju svona. Það er fólk að deyja i heiminum…. það er margt verra en 3500kr.“
„Eruð þið i alvöru að réttlæta þetta?,“ segir í næstsíðasta innlegginu áður en lokað var fyrir athugasemdir. „Ekki bera costco saman við smá sjoppur sem selja hamborgaratilboð og smá fyrirtæki. Costco á alveg fyrir 20.000 króna jólabónus eða meira,“ segir viðkomandi og bætir svo við að lokum: „Ég fíla að versla í costco en 3500 er brandari.“
Silja segir svo í síðasta innlegginu, áður en lokað var fyrir athugasemdir:
„Greinilegt að góðærið sé að ná toppi. Þegar fólk er farið að setja út á virði jólagjafar, í stað þess að gleðjast. Fyrirtækið er rekið eftir einhverjum ákvæðum, og þeim er algjörlega valfrjálst að gefa jólagjafir. Og það að manneskja þurfi að taka þetta svona inná sig með að pósta því á feisbúk, og einnig að taka það fram hversu veglega jólagjöf hann gaf sínum starfsmönnum segir meira heldur en „virði“ jólagjafar frá Costco. Ef þér finnst þetta svona ósanngjarnt, hafðu þá samband við stjórnarmenn Costco.“