„Þetta eru um 30 milljónir króna í ár og enginn stórvinningur. Það eru langflestir komnir með þetta rafrænt og því auðveldara að finna vinningshafa en áður. Við hvetjum þá sem eru með handhafamiða til að skoða þá vandlega.“
Þetta segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Íslendingar eru duglegir við að taka þátt í lottói, happdrætti og getraunum og eru milljarðar króna greiddir út á hverju ári. Svo virðist þó vera sem sumir trassi það að sækja vinningsféð þó minna virðist vera um það en áður. Stefán segir til dæmis að ósóttir vinningar séu í sögulegu lágmarki þó þeir nemi um 30 milljónum króna í það heila.
Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Sigurð Ágúst Sigurðsson hjá Happdrætti DAS sem segir að ósóttir vinningar séu að jafnaði um eitt prósent af heildarupphæð vinninga. Félagið greiðir um 200 milljónir út á hverju ári og nemur heildarupphæðin því um tveimur milljónum króna.