18 ára piltur hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Dómur féll í Héraðsdómi Suðurlands í gær.
Pilturinn var sakfelldur fyrir að hafa í janúar á þessu ári ráðist á karlmann fyrir utan hús á Selfossi og slegið hann í höfuðið þannig að hann féll í jörðina. Því næst sló hann ítrekað og sparkaði í líkama hans þar sem hann lá. Afleiðingarnar voru þær að maðurinn hlaut opið sár í vinstra munnviki, rautt og bólgið far á hægri upphandlegg, roða á hálsi, bólgnar varir, sprungna neðri vör og eymsli yfir vinstra kinnbeini og vanga.
Þá var pilturinn einnig sakfelldur fyrir að hafa í tvígang undir áhrifum áfengis, en í fyrra skiptið var hann einnig undir áhrifum kókaíns. Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa í júní síðastliðnum haft í vörslu sinni 0,64 g af maríhúana sem lögregla fann í úlpuvasa hans við líkamsleit.
Fórnarlamb líkamsárásarinnar setti fram einkaréttarkröfu og viðurkenndi pilturinn viðurkenndi bótaskyldu sína í málinu. Fórnarlambið fór fram á á 1,5 milljón í miskabætur frá piltinum en piltur mótmælti þeirri fjárhæð sem of hárri.
Pilturinn játaði sök fyrir dómnum en hann hefur ekki sætt refsingu áður Við ákvörðun refsingar var meðal annars tekið tillit til ungs aldurs hans.
Auk fangelsisrefsingarinnar er honum gert að greiða fórnarlambinu 350 þúsund krónur í miskabætur.