„Það er súrt að vera komin á þennan aldur og þurfa að vinna tvöfalt, eiga ekki fast heimili og þurfa stundum að leita hjálpar,“ segir Hrafnhildur Garðarsdóttir, einstæð móðir sem hefur verið á hrakningum á leigumarkaði síðastliðin sjö ár. Hún sér nú fram á að missa leiguíbúð sína, þar sem hún býr ásamt átta ára dóttur sinni, og flytja inn á eldri dóttur sína og tengdason þar sem þær mæðgur geta gist á svefnsófa. Hún bendir á það er ekki einungis unga fólkið sem á erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn heldur einnig miðaldra og eldri einstaklingar.
Hrafnhildur er 48 ára gömul og búsett á höfuðborgarsvæðinu. Hún er menntaður snyrtifræðingur og hefur starfað við fagið síðastliðin 25 ár.
Saga hennar er svo sannarlega ekki einsdæmi. Líkt og sönnum Íslendingi sæmir hefur hún unnið myrkrana á milli öll sín fullorðinsár. Hún missti íbúðina sína í hruninu og er nú föst á leigumarkaðnum.
„Ég hef nánast alltaf verið í tveimur vinnum. Í dag vinn ég sem sölumaður á matvöru, leikföngum og gjafavöru í fullu starfi og við kynningar fyrir á snyrtivörum í aukavinnu. Ég á tvær dætur og eina ömmustelpu. Sú yngri er 8 ára og eldri 24 ára, komin í sambúð og með barn. Ég er búin að búin að vera á leigumarkaði síðastliðin sjör ár eða frá því ég skildi við barnsföður minn. Ég átti íbúð en við bjuggum í hans íbúð um tíma. Svo kom hrun og þá átti ég allt í einu ekki íbúð lengur.
Afborganirnar breyttust á einu augabragði þannig að ég gat ekki með nokkru móti staðið við þær. Ég átti engan þátt í því hvernig fór og því er þetta súrt. Síðan þá er ég búin að vera á leigumarkaði. Við erum búnar að flytja fjórum sinnum á þessum tíma. Og það tekur á.
Í dag leigi ég íbúð af einstaklingi sem á að selja en eigandinn virðist bara bíða eftir að ég fari svo hann geti selt. Hér eru meðal annars bilaðir ofnar og blöndunartæki og gluggar sem ekki er hægt að loka. Ég hef í marga mánuði beðið um viðgerð en eigandinn svarar engu, hann ætlar að selja. Hér verður því ansi kalt en ég á sem betur fer rafmagnsofna sem ég gríp í.“
„Þó ég sé í tveimur vinnum þá ná endarnir ekkert alltaf saman. Því meira sem ég vinn, því meira greiði ég í skatt og minna verður eftir. Þetta er vítahringur sem erfitt er að komast út úr. En það er ekki í boði að gefast upp og ekki vinna. Ég hef alltaf verið dugleg til vinnu og hef oftast náð að bjarga mér. Ég á líka góða að sem hafa hlaupið undir bagga ef það stendur illa á.“
Hrafnhildur hefur verið einhleyp síðastliðin sjö ár og er oft spurð af hverju hún „fái sér ekki bara mann.“ Þá verði allt einfaldara.
„Það getur vel verið en það er ekki alveg svona einfalt. Ég á lítinn frítíma og þann tíma sem ég á, hann eiga dætur mínar og fjölskylda,“ segir hún og bætir við að við að kanski hafi þetta eitthvað með stolt að gera. „Ég get alveg séð um okkur sjálf.“
Eins og staðan er í dag þá sér Hrafnhildur ekki annan kost í stöðunni en að þær mæðgur setji búslóðina í geymslu og flytji inn til eldri dótturinnar og tengdasonarins, þar sem þær geta sofið á svefnsófa.
„Dapurleg staðreynd en staðreynd engu að síður. Þær íbúðir sem mér hafa boðist eru ýmist pínulitlar eða á þannig verði að ég ræð engan veginn við þær. Það getur engin með venjuleg laun greitt leigu upp á 250 þúsund.Og það virðist ekki skipta máli hvort þetta séu leigufélög eða einstaklingar sem leigusalar, verðmiðinn hækkar bara og hækkar.
Ég hef talað við bankann minn og þar var mér eiginlega vottuð samúð en það væri ekkert sem hann gæti gert, reglurnar leyfa ekki að íbúðir séu veðsettar hærra en 80% nema við fyrstu kaup. Ég get ekki keypt mér íbúð því ég á ekki útborgun þar sem ég get ekki lagt fyrir á mánuði. Ég get sýnt fram á það sem ég borga í leigu á mánuði en það segir bankanum ekkert.“
Það er svo margt rangt við kerfið okkar. Við þurfum að fá gamla húsnæðiskerfið aftur og gefa fólki kleift á að komast inn í öruggt skjól. Það þarf að setja einhvers konar þak á leigugreiðslur en það er erfitt viðureignar og við erum þannig að við finnum allltaf leið framhjá kerfinu. Það er búið að bjóða mér svarta leigu upp á 200 þúsund og ekki hægt að þinglýsa samningi því þá missir viðkomandi bæturnar sínar.“
Líkt og margir aðrir í þessari stöðu þá er Hrafnhildi í raun allar bjargir bannaðar.
„Ég get flutt út á land en ég fer ekkert ef ég er ekki með vinnu eða húsnæði. Ég get flutt erlendis en ég fer ekkert ef ég er ekki með vinnu eða húsnæði. Dóttir mín er í 3.bekk í grunnskóla sem þýðir að ég set hennar líf og tilveru á hvolf. Hún þolir ekki vel breytingar og ég veit að allt svona rót færi illa í hana.
Ég fór eins og margir og þáði aðstoð hjá Umboðsmanni skuldara en það hafði m.a það í för með sér þetta; ég ætlaði fyrir nokkrum árum að opna launareikning hjá Landsbankanum en fékk neitun vegna þess að ég var á lista yfir þá sem höfðu farið þangað. Þetta nei er enn þann dag í dag með öllu óskiljanlegt.“
Hrafnhildur segist aldrei áður hafa greint opinskátt frá aðstæðum sínum en staðan er einfaldlega sú að hún hefur engu að tapa.
„Ég hef burðast með þetta ein í mörg ár en ég veit að það eru fleiri en ég í sömu stöðu.“