Að mati Kristjáns Sigurjónssonar, ritstjóra turisti.is, er staða WOW air mjög slæm og greinilegt að reksturinn stendur ekki undir sér. Kristján hefur lengi rýnt í rekstur flugfélaganna WOW og Icelandair, sem og flugrekstur almennt. Í viðtali við RÚV segir Kristján að nýir hluthafar í fyrirtækinu kunni að þurfa að setja allt að tíu milljarða í reksturinn á næsta ári. Félagið tapaði yfir 4 milljörðum á fyrstu níu mánuðum þessa árs en til samanburðar var hagnaður á rekstrinum fyrstu níu mánuði áranna 2016 og 2017.
Kristján segir meðal annars:
„Uppgjörið segir okkur að staðan er slæm, reksturinn er þungur og sá viðsnúningur sem átti að nást á seinni hluta þessa árs og var boðaður í skuldabréfaútboðinu síðsumars hefur ekki náðst.“
„…það er greinilegt að þeir sem ætla að leggja félaginu til fé verða að koma inn með marga milljarða, jafnvel yfir tíu milljarða til þess líka að koma félaginu í gegnum þennan öldusjó sem er fyrirsjáanlegur á næsta ári með háu olíuverði og uppstokkun í rekstri félagsins. Það er greinilegt að eins og staðan er núna og reksturinn er uppbyggður núna að hann stendur ekki undir sér.“