Rúmlega þrítug kona varð fyrir óhugnanlegri árás á göngustíg hjá kirkjugarðinum við Hringbraut í Vesturbænum í nótt. Hún slapp frá árásamanninum með því að bíta í hendi hans og gat flúið undan honum. Konan telur vel hugsanlegt að maðurinn hafi setið fyrir henni – eða hverri þeirri konu sem ætti leið um.
Konan skrifaði stuttlega um málið á Facebook:
„Klukkan var orðið margt og það orðið dimmt þegar ég geng heim úr miðbænum í nótt. Ég er að fara framhjá kirkjugarðinum í Vesturbænum meðfram Hringbrautinni þegar ég mæti manni sem heilsar mér, gengur upp að mér og ræðst svo á mig. Ég hugsa bara að ég trúi ekki að þetta sé að gerast, öskra en það er engin nálægt, næ að lokum að bíta hann af mér.
Eftir á læðist sá grunur að mér að hann hafi setið fyrir mér/konum, af því að staðsetngin er mjög hentug fyrir svona lagað, þar sem göngustígurinn er talsvert frá allri umferð. Þetta var Íslendingur um fertugt ca 185 cm á hæð og dökkhærður. Mér finnst rétt að vara við honum.“
Í stuttu samtali við DV staðfesti konan að hún hefði verið í sambandi við lögreglu í dag vegna málsins og er árásarmannsins leitað. Hún hafi ekki hringt í lögreglu í nótt þar sem sími hennar var hleðslulaus og hún fann ekki hleðslutækið sitt.
Rétt er að vara þá sem eiga leið um Vesturbæinn að næturlagi við þessum stað og manninum.