WOW air sagði upp fimmtán starfsmönnum nú í morgun. Fréttablaðið greinir frá.
Fram kemur að þeir sem fengu uppsagnarbréf starfi flestir á Keflavíkurflugvelli.
Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi WOW air staðfestir í samtali við Fréttablaðið að uppsagnir hafi átt sér stað og að um sé að ræða eðlilegt framhald í kjölfar fækkunar á flugvélaflota WOW air og árstíðabundnar sveiflur.
Líkt og DV greindi frá í morgun hefur rekstrarvandi WOW air haft mikil áhrif víða í samfélaginu. Í gær var 237 starfsmönum Airport Associates ehf sagt upp störfum en fyrirtækið sér um að þjónusta vélar WOW air á Keflavíkurflugvelli.
Um varúðarráðstöfun er að ræða sagði Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Fréttablaðið. WOW air stendur undir um helmingi af starfsemi Airport Associates.
Eins og fram kom í tilkynningu frá WOW air í gærkvöldi hafa félagið og fjárfestingarfélagið Indigo Partners náð samkomulagi um fjárfestingu hins síðar nefnda í WOW air.