Gengi bréfa í Icelandair hefur lækkað síðan viðskipti hófust í kauphöllinni í morgun. Þegar þetta er skrifað hefur gengið lækkað um 10 prósent í 26 viðskiptum fyrir rúmar 170 milljónir króna.
Í morgun bárust fréttir af því að Icelandair hefði hætt við kaupin á WOW air. Komust félögin að þessari sameiginlegu niðurstöðu.
Sjá einnig:
Vilhjálmur: Þetta gæti gerst fyrir 35 milljóna króna húsnæðislánið þitt ef WOW fer í þrot
Gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu hefur einnig styrkst það sem af er degi. Evran hefur hækkað um tæpt eitt prósent, pundið um tæp 0,3 prósent og Bandaríkjadollar um 0,17 prósent. Síðastliðinn mánuð hefur evran styrkst um 3,49 prósent og Bandaríkjadollar um 3,76 prósent. Pundið hefur styrkst um 3,36 prósent.
Gengisvísitalan stendur nú í 186,7 stigum en var 184,7 stig fyrir sléttri viku. Gengisvísitala krónunnar er vegið meðaltal af gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu. Hækkun vísitölunnar táknar lækkun á verðmæti íslensku krónunnar.