WOW air flugfélagið hyggst bjóða indversku pari í brúðkaupsferð til Íslands þar sem allt er innifalið. Hin nýbökuðu hjón fá meðal annars frítt í Bláa Lónið og munu gista á lúxushóteli.
Eins og kunnugt er mun WOW air hefja áætlunarflug til Delí á Indlandi þann 6.desember næstkomandi en þar er brúðkaupstímabilið nú í hámarki. Verðandi brúðhjón geta skráð sig til leiks á heimasíðu WOW air og sömuleiðis geta vinir og vandamenn sent inn tilnefningu. Keppnin hófst 20.nóvember síðastliðinn og mun standa yfir til 14.desember næstkomandi. Greint er frá þessu á erlendum miðlum á borð við Latestly.
Vinningsparið mun hljóta flug til og frá Íslandi, fimm nátta dvöl í lúxusvítu á Fosshótel, þyrluflug með Reykjavik Helicopters og hvalaskoðunarferð auk þess sem þeim býðst að heimsækja Bláa Lónið.
Þar að auki mun parið fá 1000 bandaríkjadali í farareyri, sem jafngildir rúmlega 123 þúsund íslenskum krónum.
Í tilkynningu segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air að Indverjar hafi tekið afar vel í komu WOW air á þarlendan markað. „Nú þegar það fer að styttast í okkar fyrsta áætlunarflug þá er fullvíst að keppnin á eftir að ýta undir stöðu okkar á indverska markaðnum.“