Varðskipið Þór náði línubátnum Núpi á flot í Patreksfirði á tíunda tímanum í morgun. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að varðskipið hafi verið sent vestur eftir að tilkynning barst um strandið í gærkvöld og hóf áhöfn þess þegar í stað undirbúning við að ná skipinu af strandstað.
Taug var komið fyrir á milli skipanna og þegar færi gafst í morgunflóði var Núpi komið á flot. Björgunarskipið Vörður dregur Núp síðasta spölinn inn í Patreksfjarðarhöfn þar sem skemmdir verða kannaðar.
Meðfylgjandi eru myndir frá Landhelgisgæslunni frá aðgerðum morgunsins.