„Ég var bara brotabrot af sjálfri mér að reyna að halda haus í stanslausum hvirfilbyl þar sem ekki einu sinni ég sjálf var með mér í liði.“ Þannig lýsir María Hjálmtýsdóttir líðan sinni í 18 ára löngu ofbeldissambandi.
Þetta kemur fram í pistli Maríu á vef Knúz en María ræddi upphaflega um reynslu sína í viðtali sem birtist á vef Bleikt í mars árið 2017. Hún var 18 ára þegar sambandið hófst. Maðurinn er af erlendu bergi brotinn en hann hlaut síðar íslenskan ríkisborgararétt.
María lýsir því hvernig ofbeldissambandið brenglaði sjálfsmynd hennar svo mikið að hún var sjálf orðin virkur þáttakandi.
„Til dæmis passaði ég að finna alltaf strax afsakanir fyrir því að komast ekki í vinnuferðir eða ýmiskonar partý af því að ég vissi að það yrðu bara leiðindi úr því ef ég nefndi það heima. Ég passaði að halda óþægilegu fólki fjarri en þau sem leyfðu sér að gagnrýna eða sáu í gegnum grímuna voru efst á bannlistanum.
Suma dæmdi hann út úr lífi mínu en aðra fjarlægði ég sjálf af því að ég var löngu búin að læra reglurnar og vissi hverjir máttu ekki vera hluti af lífi mínu. Afsakanalistinn minn var langur og ég er enn í dag að þjálfa mig í því að segja ekki bara strax nei takk við allskyns tilboðum og ljúga því að ég þurfi að mæta í ristilspeglun nákvæmlega á þeim tíma sem viðburðurinn hefst.
Þá lýsir hún því hvernig meðvirknin litaði hegðun hennar og hugsanir.
„Af því að ofbeldismaðurinn var makinn minn var ég auðvitað með honum í liði. Stundum gegn sjálfri mér og alltaf gegn þeim sem honum fannst vera á móti sér. Reyndar þótti honum grunsamlega margir vera sífellt að vinna á einhvern hátt gegn sér og oftar en ekki vorum við tvö ein á móti heiminum og þá reið á að sannfæra hann um að ég myndi nú örugglega ekki yfirgefa liðið. Ef ég snérist gegn honum myndi hann deyja eða brjálast eða segja öllum hvað ég væri mikil gála eða bara eitthvað. Svo auðvitað snérist ég ekkert gegn honum,“
ritar María og nefnir dæmi þar sem meðvirkni hennar gekk einum of langt.
„Einu sinni ásakaði erlendur starfsmaður okkar hann um að snuða sig um laun. Innst inni vissi ég að hann væri alveg vís til þess að fara illa með fólk en minn maður brjálaðist og auðvitað var ég með honum í liði. Ég snéri allar litlu raddirnar í höfðinu niður og tók til við að verja minn mann og ég skrifaði hádramatíska póstana til stéttarfélagsins um það hvaða árans óbermi aumingja starfsmaðurinn væri. Ég réðst á hann og hans trúverðugleika af öllum mætti til að halda friðinn heima hjá mér. Til að róa minn mann, styðja hann og sanna enn og aftur fyrir honum að ég væri nú aldeilis með honum í liði. Og ég laug og ég rakkaði mann niður fyrir að leita réttar síns. Ég fórnaði honum fyrir minn frið.“
Hún segist hafa verið blind á ástandið á meðan á sambandinu stóð en ofangreint atvik situr í henni enn í dag.
„Í dag skammast ég mín niður í tær og ég hef aldrei þorað að horfast í augu við starfsmanninn síðan. Auðvitað á ég að finna hann og biðja hann afsökunar. Auðvitað á ég að skammast mín fyrir að hafa notfært mér staðalmyndir og útlendingafordóma til að draga úr trúverðugleika mannsins. Auðvitað átti ég ekki að verja þann sem var í órétti en ég lét mig trúa honum eins og ég var vön að búa til lógík úr kjaftæði.“
María náði að lokum að koma sér út úr aðstæðunum en hún hafði að eigin sögn verið „rugluð, ringluð, týnd, lasin og blind.“ Hún hafði talið sér trú um að hún væri að gera rétt með því að standa með ofbeldismanninum.
„Annað fólk var alltaf vont við minn mann og ég varði hann. Það var mitt hlutverk og til að geta uppfyllt það varð eg að trúa lyginni Ég var lengi að fatta það og fyrirgefa mér. Svo gat ég fundið sjálfa mig aftur. Og þessi sjálf er ég bara ansi hreint ágæt þrátt fyrir allt.“