Laust eftir klukkan ellefu í gærkvöld var karlmaður handtekinn í heimahúsi í Kópavogi þar sem hann var búinn að brjóta og bramla heima hjá sér. Var ekkert annað hægt að gera en að vista hann í fangageymslu þar til af honum rennur, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Afar mörg tilvik eru skráð í dagbókina um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna í gærkvöld og nótt. Meðal annars var ökumaður stöðvaður um eittleytið grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og einnig fundust hjá honum ætluð fíkniefni sem lögreglan tók. Var hann látinn laus að lokinni blóðtöku.
Um þrjúleytið í nótt var karlmaður handtekinn í miðbænum eftir að hann réðst að lögreglubíl, beraði sig og fór ekki að fyrirmælum. Hann var vistaður í fangageymslu vegna málsins.
Á tólfta tímanum í gærkvöld var tilkynnt um rúðubrot í verslun í miðbænum. Ekki er vitað hvort eitthvað var tekið né hver var að verki.
Um hálftólfleytið var tilkynnt um ofurölvi konu í miðbænum og var komið sjúkralið á vettvang til að líta á hana. Ekki þótti ástæða til frekari afskipta en vinafólk hennar kom henni heim til sín.
Laust fyrir klukkan eitt var tilkynnt um geltandi hund í húsnæði í austurbænum. Hafði geltið verið í gangi í langan tíma. Ekki náðist í eiganda en tilkynnanda var bent á að hafa samband við Matvælastofnun vegna málsins.