fbpx
Fimmtudagur 21.ágúst 2025
Fréttir

Hrikaleg upplifun Hrafnhildar og fjölskyldu – Grétu og öskruðu af hræðslu

Auður Ösp
Föstudaginn 2. nóvember 2018 13:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrafnhildur P. Þorsteinsdóttir og fjölskylda hennar urðu fyrir óhugnanlegri lífsreynslu í Los Angeles þegar ókunnugur maður miðaði á þau skammbyssu. Í nokkrar mínútur höfðu þau ekki hugmynd um hvert næsta skref hans yrði og hvort þau myndu komast lífs af. Atvikið átti sér stað á fjölfarinni götu að morgni til og líkir Hrafnhildur því við að vera stödd í bíómynd.

Fyrstu viðbrögðin voru að frjósa

Í samtali við við blaðamann lýsir Hrafnhildur þessari skelfilegu upplifun en hún og eiginmaður hennar, Þór Þorsteinsson, voru í fríi í Los Angeles ásamt dóttur sinni og vinkonu hennar sem eru 11 og 14 ára.

Að sögn Hrafnhildar átti atvikið sér stað að morgni 31. júlí en fjölskyldan var þá á leið í Six Flags-tívolígarðinn í Santa Clarita og eftirvæntingin var mikil.

„Við erum nýbúin að beygja af Hollywood Boulevard, inn á Highland Avenue og stoppum þar á gatnamótunum á rauðu ljósi. Þá sjáum við þennan mann ganga rólega yfir götuna. Allt í einu stoppar hann úti á miðri götu, um 30 til 40 metrum fyrir fyrir framan bílinn okkar. Hann hendir frá sér fötum sem hann hélt á, fer með höndina ofan í vasann og rífur upp skammbyssu sem hann síðan beinir að okkur með báðum höndum.“

Hrafnhildur segir erfitt að lýsa þeirri skelfingu sem greip um sig á þessu augnabliki. Skyndilega hafi líf þeirra allra verið í höndum byssumannsins. Fyrstu viðbrögðin hafi að sjálfsögðu verið þau að frjósa.

„Það var eins og tíminn stoppaði. Ég heyrði engin hljóð í kringum mig og ég sá ekkert í kringum mig, það eina sem ég sá var hann og byssan. Í þessum aðstæðum verður maður algjörlega varnarlaus. Hann var algjörlega með völdin. Ég öskraði á stelpurnar að beygja sig niður. Það heyrðist ekki múkk í neinum í bílnum og í augnablik var allt hljótt.“

Fjölskyldan beið milli vonar og ótta næstu sekúndurnar þar sem þau höfðu ekki hugmynd um hvert næsta skref mannsins yrði, hvort hann myndi koma nær bílnum eða hvort hann myndi byrja að skjóta.

 

Los Angeles
Los Angeles Staðurinn þar sem atvikið átti sér stað.

Grétu og öskruðu

Hrafnhildur segir að eftir smástund hafi þau hjónin litið örlítið upp fyrir mælaborðið í bílnum. Maðurinn var þá byrjaður að ganga í burtu, sallarólegur, og var ennþá með báðar hendur á byssunni.

„Það var ennþá allt stopp í kringum okkur, engin viðbrögð, engin hljóð.“

Eiginmaður Hrafnhildar ákvað að standa bílinn yfir á rauðu ljósi og segir Hrafnhildur að maðurinn hafi áfram beint byssunni að þeim, allt þar til þau voru komin í hvarf.

„Sjokkið kom eiginlega ekki fyrr en við vorum búin að keyra aðeins lengra og gátum loksins stöðvað bílinn. Þá fyrst byrjuðu stelpurnar að gráta og öskra af hræðslu.“

Hrafnhildur segir þau hafa rætt saman í dágóða stund og reynt að ná áttum. Fjölskyldan tók síðan þá ákvörðun að halda sínu striki þrátt fyrir þetta óvænta atvik.

„Við ætluðum ekki að láta þetta eyðileggja fyrir okkur ferðina. Þannig að við fórum í tívolígarðinn eins og við höfðum ákveðið að gera. Við vorum ennþá í áfalli, en stelpurnar áttu þó auðveldara með að gleyma sér í öllu fjörinu.“

 

Þakklát

Hjónin tilkynntu atvikið til lögreglu daginn eftir, með aðstoð vinafólks síns sem búsett er í Kaliforníu.

„Við tókum skýrt fram að við vildum tilkynna þetta, að við hefðum verið þarna og við hefðum séð þennan mann og værum tilbúin að bera vitni, en við vildum ekki fara að eyða síðustu dögunum af fríinu á lögreglustöð í skýrslutöku eða sakbendingu.

Hrafnhildur segir að þeim hafi þannig tekist að njóta daganna sem þau áttu eftir í Bandaríkjunum en þau fóru heim til Íslands þann 4. ágúst.

„Við vorum bara mjög dugleg að tala um þetta, og við höfum rætt þetta við stelpurnar í hvert sinn sem þær vilja. Ég held að við höfum unnið mjög vel úr þessu öllu saman og við höfum ekki þurft að leita okkur áfallahjálpar eða neitt slíkt. Þetta hefði auðvitað geta komið fyrir hvern sem er. Við höfum rætt hvað við erum heppin að ekkert okkar dó og við erum að sjálfsögðu ótrúlega þakklát. Við erum reynslunni ríkari eftir þetta og látum þetta að sjálfsögðu ekki stoppa okkur í neinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

RÚV mátti ekki auglýsa Rás 2 á undan Áramótaskaupinu

RÚV mátti ekki auglýsa Rás 2 á undan Áramótaskaupinu
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Björn Ingi segir átök vera fram undan: „Tekist er á um þessi mál að tjaldabaki þessa dagana“

Björn Ingi segir átök vera fram undan: „Tekist er á um þessi mál að tjaldabaki þessa dagana“
Fréttir
Í gær

Andri Snær klórar sér í kollinum yfir nýju göngubrúnni: „Hún virðist líka eiga að vera svona“

Andri Snær klórar sér í kollinum yfir nýju göngubrúnni: „Hún virðist líka eiga að vera svona“
Fréttir
Í gær

Menn á sjötugsaldri ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnasmygl – Fluttu kókaín í pottum með Norrænu

Menn á sjötugsaldri ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnasmygl – Fluttu kókaín í pottum með Norrænu