Tvær manneskjur létust í brunanum sem varð á Kirkjuvegi á Selfossi í gær. Þetta staðfestir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við DV. Mikill eldur kom upp í húsinu, sem er einbýlishús, síðdegis í gær.
Karl og kona voru handtekin í kjölfar brunans en ekki reyndist unnt að yfirheyra þau í gærkvöldi sökum ástands. Húsið sem brann er gamalt, hæð og ris og einangrað með frauðplasti að hluta. Í tilkynningu frá lögreglu í gærkvöldi kom fram að talið væri að karlmaður og kona sem voru á efri hæðinni þegar bruninn kom upp hefðu látist. Það hefur nú verið staðfest, að sögn Péturs.
Pétur sagði við DV í morgun að vettvangurinn hafi formlega verið afhentur lögreglu. Enn er þó mannskapur frá Brunavörnum Árnessýslu á vettvangi því enn eru að koma upp glæður í húsinu. Þá segir Pétur að fari þurfi varlega á vettvangi til að vernda rannsóknarhagsmuni.
Lögregla og tæknideild lögreglu eru að hefja vinnu á vettvangi, en í tilkynningu frá lögreglu í morgun kemur fram að byrjað verður á því að tryggja milligólf vegna hrunhættu. Skýrslutökur af þeim sem handteknir voru í gær munu fara fram í dag.