Það verður hvasst á austurhelmingi landsins seinni partinn í dag og þeim sem hyggja á útivist er bent á að fylgjast vel með veðri. Veður versnar hratt á austanverðu landinu síðdegis og vestantil annað kvöld.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Þar segir að vaxandi suðaustanátt með hvassviðri og rigningu muni gert vart við sig á morgun. Snjókoma eða slydda verði til fjalla vestast á landinu annað kvöld sem færist síðan austur yfir landið aðfaranótt sunnudags.
Gul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði og Suðausturland; vindhviður gætu náð 35 metrum á sekúndum á Suðurfjörðum, einkum í Berufirði og Hamarsfirði. Þetta gæti verið varasamt fyrir ökumenn með aftanívagna eða ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.
Sama er uppi á teningnum á Suðausturlandi, frá Öræfum austur í Lónssveit þar sem vindhviður geta náð 35 metrum á sekúndum.
Á sunnudag:
Sunnan 13-20 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla. Þurrt að kalla norðaustantil. Hiti 2 til 7 stig á láglendi. Snýst í hægari suðvestanátt með skúrum eða éljum þegar líður á daginn og kólnar, fyrst V-lands.
Á mánudag:
Fremur hæg suðlæg átt og stöku él, en heldur hvassara og dálítil rigning austast. Hiti kringum frostmark.
Á þriðjudag:
Austlæg átt 8-13 m/s og rigning eða slydda með köflum, einkum suðaustanlands. Hiti 0 til 4 stig að deginum.
Á miðvikudag:
Austlæg eða norðaustlæg átt og skúrir eða él í flestum landshlutum. Kólnandi veður.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með vætu og heldur hlýnandi veðri.