Maðurinn sem hefur verið í haldi lögreglu eftir dauða ungrar konu á Akureyri um liðna helgi er laus úr haldi. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald sem rann út á hádegi í dag.
Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.
Maðurinn var í íbúð konunnar þegar hún lést og er hann grunaður um að hafa komið henni ekki til hjálpar.
Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í gær kom fram að maðurinn hefði verið samstarfsfús og gert ráðstafanir til að liðka fyrir rannsókn málsins.
Samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurðinum frá því á mánudaginn var ekki hægt að yfirheyra hann á sunnudag vegna áhrifa af lyfjum. Var talið að maðurinn hafi látið sig hverfa þegar faðir konunnar kom á heimilið á sunnudagsmorgninum. Maðurinn hefur komið við sögu lögreglu áður, en þá fyrir smáglæpi.
Við handtöku mannsins fundust munir sem hann hafði í vörslum sínum en tilheyrðu hinni látnu. Á þriðjudag fór fram húsleit á dvalarstað mannsins með hans samþykki. Þar var lagt hald á síma og tölvubúnað sem tekinn verður til rannsóknar. Segir lögregla að maðurinn og konan hafi þekkst og verið í samskiptum á laugadagskvöldið.
Bráðabirgðaniðurstaða krufningar liggur fyrir en niðurstöður eiturefnarannsóknar er beðið.