Þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskipið Hannes Hafstein, frá Sandgerði, og björgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í hádeginu eftir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá vélarvana báti sem staddur er um 1 sjómílu norður af Garðskagavita.
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að TF-LIF hafi haldið frá Reykjavík þegar klukkuna vantaði um tuttugu mínútur í eitt og er hún komin að bátnum. Skipverjum tókst að stöðva rek bátsins með því að setja út akkeri. Bráð hætta er liðin hjá en þyrla Landhelgisgæslunnar mun vera til staðar ef á þarf að halda. Björgunarskipið verður komið á vettvang innan skamms og er gert ráð fyrir að það taki bátinn í tog.