„Ég var svosem aldrei reiður við hana, þannig séð. Ég veit ekki af hverju ég var ekki reiður,“ segir Páll Snorrason en hann var sjö ára gamall þegar hann var tekinn frá móður sinni í Reykjavík og komið fyrir hjá fósturforeldrum úti á landi. Móðir hans var djúpt sokkin í fíkniefnaneyslu og lést langt fyrir aldur fram. Aðstæðurnar sem Páll bjó við fyrstu ár ævi sinnar voru vægast sagt skelfilegar og hann var þeirri stund fegnastur þegar hann var fjarlægður af heimilinu. Þegar móðir hans lést, langt fyrir aldur fram var hann í raun feginn hennar vegna.
Páll segir sögu sína í sjónvarpsþættinum Fósturbörn sem sýndur var á Stöð 2 á dögunum. Áður en hann var settur í varanlegt fóstur var hann margoft tekinn af heimili móður sinnar í Reykjavík og sendur í sveit fyrir austan.
Móðir hans fékk hins vegar „endalausa sénsa“ eins og hann orðar það: Í hvert sinn sem hún fór í meðferð og stóð sig vel var Páll sendur til hennar aftur, í blokkaríbúðina á Kleppsveginum. Á heimili móður hans var eiturlyfjaneysla og átök daglegt brauð. Hann minnist þess að hafa verið fjögurra ára gamall og þurft að gefa sér sjálfur að borða. Fimm ára gamall þurfti hann að labba einn í skólann, þar sem móðir hans lá áfengisdauð í stofunni.
„Maður upplifði svo margt þarna á Kleppsveginum. Eitthvað sem maður vildi ekki vita um. Það voru læti og slagsmál,“ segir hann.
„Einu sinni kom ég út úr herbergimu mínu og þar var einstaklingur, kona, sem var dáin. Svona er þessi heimur,“ bætir hann við. Hann segist hafa leitað sér skjóls undir rúmi eða inni í fataskáp. „Maður kom sér bara undan.“
Í eitt skiptið mættu handrukkarar heim til mæðgnanna og beittu móður Páls hrottalegu ofbeldi.
„Það er mjög slæm minning og ég vil í raun ekki fara neitt nánar út í það hvernig það var gert. Þeir komu vegna manns sem var fastagestur hjá okkur. Það var ekkert verið að spyrja um einhverja putta eða eitthvað. Þannig er bara þessi heimur.“
Hann segir lögregluna reglulega hafa komið inn á heimilið enda hafi „þekkt lið“ úr dópheiminum átt þar samastað. Lögreglan hafi margoft komið og séð hann í þessum aðstæðum en engu að síður hafi ekki verið gripið inn í þegar þurfti.
Hann flakkaði sem fyrr segir stöðugt á milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Í þættinum er einnig rætt við Ingibjörgu Sigríði, fósturmóður Páls sem minnist þess að hann hafi grátið háfstöfum þegar það átti að senda hann til baka til Reykjavíkur.
„Ég saknaði þess ekki að vera í Reykjavík, alls ekki,“ segir Páll og bætir við á öðrum stað að það hafi verið léttir að komast í burtu. Það var ekki fyrr en hann var orðinn sjö ára að hann var tekinn endanlega frá móður sinni og komið fyrir hjá fósturforeldrum sínum Egilsstöðum.
Hann hélt sambandi við móður sína alla tíð, þar til hún lést. „Ég hitti hana oft. Það var allt í lagi, hún var veikur sjúklingur. Það vill enginn setja barnið sitt í þessa stöðu,“ segir hann og bætir við að móðir hans hafi verið afskaplega góð kona. Það vissu allir sem þekktu hana.
Hann segist efast um að móðir hans hafi dáið sátt. Hún var ennþá í neyslu þegar hún lést og segir Páll að í raun sé ótrúlegt hversu lengi hún var í neyslu, miðað við hversu hörð neyslan var.
„Ég var mjög fegin þegar hún dó, ef ég á að segja alveg eins og er. Hennar friður. Hún var búin að vera í neyslu allt sitt líf frá því hún var 16 ára gömul. Ég held að það hafi verið fínt fyrir hana að deyja, hún var búin að að vera í „heavy“ neyslu öll sín ár og hún var orðin þreytt.“
Páll er hamingjusamlega giftur í dag og á lítinn dreng. Óneitanlega banka æskuminningarnar upp á nú þegar hann er sjálfur orðinn faðir.
„En ég held að þetta hafi ekki mótað mig neitt serstaklega. Ég er bara fegin að ég hafi verið tekin, og sé ekki í þessum heimi. Ég hefði örugglega lent í einhverju ef ég hefði alist upp í þessu sjálfur.“