„Það er tíðindalítill dagur í vændum í veðrinu og í raun er þetta lognið á undan storminum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Í dag verður vestlæg eða breytileg átt með vætu fyrir norðan, en að mestu verður þurrt sunnan heiða. Þá léttir víða til í kvöld með frekar hægum vindi sem eru kjöraðstæður fyrir kalda nótt, að sögn veðurfræðings, sem bætir við að útlit sé fyrir næturfrost í nótt, einkum inn til landsins.
„Á morgun dregur til tíðinda þegar lægð kemur að landinu úr suðri með austan og norðaustan hvassviðri eða storm og úrkomu allvíða. Einna hvassast verður með S-ströndinni þar sem útlit er fyrir að meðalvindur geti farið upp í 25 m/s í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Hviður við fjöll geta hæglega farið í 35 m/s á svæðinu og vert að gæta að lausamunum og bílum sem taka á sig vind. Bent er á gular viðvaranir sem eru í gildi. Aðfaranótt fimmtudags snýst vindurinn til norðlægrar áttar með kólnandi veðri og útlit er fyrir að veðrið verði einna verst NV-til.“
Ef marka má spákort Veðurstofunnar verður nokkuð kalt á landinu um helgina; hiti verður nokkuð fyrir neðan frostmark fyrir norðan og austan á laugardag en sunnanlands verður nokkurra gráðu hiti að líkindum.