Rétt áður en Síðumúlafangelsi var rifið fengu kvikmyndagerðamenn sem unnu að þáttunum Aðför að lögum, sem fjölluðu um Geirfinns- og Guðmundarmálin, að kvikmynda atriði í fangelsinu. Þeir komust að því að til voru dagbækur í fangelsinu í mörgum bindum og frá þeim tíma þegar sakborningar í málunum voru í haldi. Dagbækurnar geymdu meðal annars upplýsingar um illa meðferð á föngunum.
Einar Magnús Magnússon, leikstjóri þáttanna, lýsir því hvernig hann og Sigursteinn Másson beittu brögðum til að komast í dagbækurnar. „Vantrúaðir á að þetta gæti virkilega verið svo gott sem okkur heyrðist það vera spurðum við hvort það gæti verið að þarna væru dagbækurnar frá þeim tíma sem sakborningar Geirfinns og Guðmundarmálsins sátu í einangrun? Jú – það ku vera sagði yfirfangavörðurinn glaðbeittur og benti á ártöl tiltekinna bóka,“ segir Einar í frásögn þar sem hann rifjar upp gerð þáttanna. Hann og Sigursteinn afvegaleiddu síðan yfirfangavörðinn til að komast í dagbækurnar.
Á endanum fengu þeir heimild til að rannsaka dagbækurnar til fulls og fundu þá staðfestingar á illri meðferð og pyntingum. Frásögn Einars á Facebook um málið er svohljóðandi:
Ég ætla að segja ykkur smá sögu sem er reyndar ekkert smá þegar hún er skoðuð í samhengi hlutanna undanfarinna daga varðandi sýknu í Geirfinns- og Guðmundarmálinu.
Það var í ágústmánuði 1996 sem ég, Sigursteinn Másson og Billi (Magnús B. Magnússon) fórum í Síðumúlafangelsið til að skoða aðstæður fyrir væntanlegar kvikmyndatökur á þáttunum Aðför að lögum. Í þáttunum var m.a. fjallað um meingallaða rannsókn og meðferð Geirfinns- og Guðmundarmála og þá hræðilegu meðferð sem sakborningar voru látnir sæta. Að gerð þáttanna kom fjöldi góðs fólks sem, knúið áfram af gagnrýnum huga og réttlætiskennd, lagði mikið á sig til að sýna fram á þá glæpi sem framdir höfðu verið í meðferð málsins. Í því sambandi vil ég til viðbótar við framangreinda nefna Kristján Burgess sem kom að handritavinnunni með Sigursteini en það er fleirum að þakka sem því miður gefst ekki pláss fyrir hér.
En sagan er þessi. Það stóð til að rífa Síðumúlafangelsið en áður en að því kæmi áttum við að hafa kost á að kvikmynda þar sviðsetningar fyrir þættina.
Í fylgd yfirfangavarðar skoðuðum við félagarnir allt fangelsið vandlega og við Billi kvikmyndatökumaður ræddum um hvernig við þyrftum og gætum með sem bestu móti skilað á skjái landsmanna þeim hræðilegu aðstæðum sem þarna blöstu við okkur.
Að lokinni langri gönguför um þetta ömurlega hús var að lokum staldrað við inni á skrifstofu fangelsisstjórans. Þar veitti Sigursteinn stórum og miklum bókum athygli en þær voru í langri röð í efstu bókahillum skrifstofunnar. Sigursteinn spurði hvaða bækur þetta væru og svaraði fangavörðurinn því til að þetta væru fangelsisdagbækurnar.
Vantrúaðir á að þetta gæti virkilega verið svo gott sem okkur heyrðist það vera spurðum við hvort það gæti verið að þarna væru dagbækurnar frá þeim tíma sem sakborningar Geirfinns og Guðmundarmálsins sátu í einangrun? Jú – það ku vera sagði yfirfangavörðurinn glaðbeittur og benti á ártöl tiltekinna bóka.
Það er oft sem ég hugsa um þetta augnablik og mér finnst í minningunni eins og allt hafi farið í hægagír eða slow motion á þessari stundu. Það var líkast því að hægt væri á öllu svo manni gæfist meiri tími og tækifæri til að taka réttar ákvarðanir á ögurstundu. Og það gerðist. Það varð einhver undarleg samstilling á milli mín og Sigursteins. Við þurftum engin frekari tjáskipti. Við hugsuðum það sama. Ég vatt mér með töluverðum fyrirgangi að fangaverðinum og bað hann að fyrirgefa mér en ég þyrfti að fá að skoða ákveðin hluta fangelsisins aftur – með áherslu á aftur. Ég lagði auk þess ríka áherslu á að hann kæmi með mér og Billa.
Hugmyndin gekk fullkomlega upp því greiðvikinn fangavörðurinn gekk með okkur Billa í hinn enda gangsins og að baki okkur var Sigursteinn einn eftir inni á skrifstofunni. Við Billi héldum verðinum uppteknum í dágóða stund og oft endurtók ég innihaldslausar og jafnvel kjánalegar spurningar til að halda okkur frá skrifstofunni. Ég gægðist reglulega fram til að aðgæta hvort Sigursteinn væri búinn að athafna sig og hvort okkur væri óhætt að koma til baka. Sigursteinn fann setningar og skrif sem staðfestu grun okkar um ómanneskjulega (vægt til orða tekið) meðferð á föngunum.
Sigursteinn og Kristján fóru á fullt í það að fá heimild til að rannsaka dagbækurnar enn frekar og ég man að það var ekki baráttulaust. Ég lagði mikla áherslu á að við myndum fá að kvikmynda þær svo þessi mikilvægi vitnisburður væri ekki bara endurómaður í lesnum texta. Myndræn staðfesting yrði að fylgja með. Það fengum við að lokum og við sýndum og fjölluðum um bækurnar til staðfestingar á illri meðferð – pyntingum – sakborninga.
Þetta var fyrir rúmu 21 ári síðan og þetta ásamt mörgu því sem fram kom í þáttum okkar grundvallar í rauninni það sem dómurinn tók afstöðu til í gær. Ekkert nýtt – að minnsta kosti ekkert sem varpaði nýju ljósi á málið – hefur komið fram síðan þættirnir voru sýndir en samt tók það allan þennan tíma að kemba skömmina af íslensku réttarfarskerfi. Bitsár lúsarinnar eru þó enn eftir ógróin og mann klæjar. Og svo er mál Erlu eftir!
Mér er spurn; hefði íslensk réttarfarskerfi þolinmæði til að viðhafa EKKERT í svo langan tíma ef eitthvert okkar gerðist sekt um þá glæpi sem þarna voru framdir gagnvart sakborningum og falla undir skilgreiningar á ofbeldi og pyntingar? Svarið er – sem betur fer NEI.