Fréttamaður Stöðvar 2 og Vísis, Heimir Már Pétursson, greindi í frétt í gærkvöld frá lokum gjaldtöku við Hvalfjarðargöng og ræddi hann bæði við síðustu vegfarendurna sem þurfti að greiða fyrir að fara í gegnum göngum og þá fyrstu sem fóru í gegn án þess að greiða gjald. Hinir síðarnefndu voru tveir ungir ferðamenn frá Ítalíu, kærustupar, og vissu þeir ekki hvaðan á sig stóð veðrið er Sigurður Ingi Jóhannesson samgönguráðherra færði þeim blóm.
Í viðtali við Stöð 2 sagði annar mannanna að hann vissi lítið hvað væri að seyði, bara að hann hefði orðið fyrstur til einhvers.
Í frétt Vísis um málið skrifar Heimir Már Pétursson fréttamaður Stöðvar 2 og Vísis í fyrirsögn: „Samkynhneigt par frá Ítalíu fór fyrst endurgjaldslaust í Hvalfjarðargöngin“. Eitthvað fór þessi fyrirsögn öfugt ofan í virka í athugasemdakerfi Vísis og margir fussa þar yfir því að verið sé að hafa orð á því að mennirnir séu samkynhneigðir. Hér má sjá sýnishorn af umræðunni:
Heimi Má, sem er sjálfur samkynhneigður, blöskra þessi viðbrögð og skrifar sjálfur í athugasemdakerfið:
„Dæmalaus viðbrögð. Það er sem betur fer liðin tíð að við samkynhneigðir þurfum náðarsamlegast að biðja streit meirihlutann um leyfi fyrir því hvernig við tölum um okkur. Eða er það kannski „þurfa þeir alltaf að vera að tala um þetta“ sem fer í taugarnar á sumum? Gæti það verið? Hvert sem litið er í fréttum í blöðum, útvarpi, sjónvarpi og á Netinu; í auglýsingum, sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, leikritum og í bókmenntum er haldið að okkur streit sýn á heiminn. Og þegar samkynhneigt par, tveir strákar frá Ítalíu, skjóta upp kollinum í lítilli frétt í sjónvarpi, er allt í einu alger óþarfi að taka fram að þeir séu par. En það er alveg nauðsynlegt að sýna og taka fram í öllum þeim miðlum sem ég nefndi hér að ofan, að tryggingarnar séu fyrir hjón, karl og konu með tvö börn, að bíllinn henti hjónum með börn, karli og konu, að James Bond sé mikill kvennamaður, að hjón, karl og kona, hafi unnið stóra vinninginn í Happdrætti Háskólans og svo framvegis. Þá er alveg nauðsynlegt að vita að streit fólk er á ferðinni. En svei þeim strákunum frá Ítalíu að troða sér í frétt um gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng. Það fer alveg öfugt ofan í suma, svo þeim svelgist á í iðrunum.“