„Sem trans manneskja í fjölmiðlun hef ég orðið fyrir barðinu á gríðarlegu áreiti á samfélagsmiðlum í kjölfarið og er þessi umræða að hafa neikvæðar afleiðingar á andlega heilsu trans fólks,“segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir transaktívisti en hún gagnrýnir óvæga og fjandsamlega fjölmiðlaumfjöllun um trans fólk og réttindi þeirra og segir umræðuna í samfélaginu oft andstæðukennda. Þá bendir hún á að trans fólk þurfi upp til hópa að glíma við mikla fordóma í sínu nærumhverfi, útilokun á vinnumarkaði og takmarkaðan aðgang að menntun.
Í pistli sem birtist á vef Knúz.is segir Ugla Stefanía að barátta transfólks snúist um „frelsi undan þrúgandi kynjakerfi sem úthlutar okkur kyngervi út frá kyneinkennum okkar, sem síðar meir skapar okkar sess í samfélaginu.“ Andstæðingar þessara breytinga haldi því ranglega fram að þetta muni ógna öryggi kvenna í kynjaskiptum rýmum og nú geti hver sem er arkað inn í kvennaklefa eða önnur rými og misnotað konur.
„Slíkt á sér enga stoð í raunveruleikanum, enda er ekkert sem stöðvar ofbeldismenn að gera slíkt nú þegar enda eru til staðar lög sem leyfa fólki að nota rými í samræmi við kynvitund. Þessar breytingar fela ekki í sér að fólk geti bara lýst því yfir að það sé kona á miðvikudegi og farið inn í næsta kvennaklefa og misnotað konur á fimmtudegi. Slíkt væri fáránlegt og hefur enginn trans manneskja eða samtök lagt til slíkar breytingar.
Þessi háværi hópur hefur ranglega stillt réttindum kvenna í andstæðu við réttindi trans fólks og í kjölfarið hefur trans fólk upplifað meira áreiti, mismunun og jafnvel ofbeldi í sinn garð,“
ritar Ugla Stefanía og bætir við að veruleikinn sé sá að trans fólk upplifi mikla fordóma, mismunun og ofbeldi í sinn garð, sér í lagi svartar trans konur.
„Trans fólk upplifir mikla mismunun á nánast öllum sviðum mannlífs og má telja á fingrum annarar hendi það trans fólk sem er í raunverulegum áhrifa- eða valdastöðum einhverstaðar í heiminum.“
Ugla Stefanía bendir á að sú orðræða sem andstæðingar trans fólks tileinki sér sé mjög yfirborðskennd og skorti dýpt.
„Hún gengur einfaldlega út á að ala á fjandsemi í garð valdalítils og sömuleiðis viðkvæms hóps fólks í samfélaginu.“
Ugla Stefanía bendir jafnframt á að baráttan gegn þrúgandi kynjakerfi verði ekki háð án samstöðu, óháð kyni, bakgrunni, stétt, fötlun, holdarfari, litarhætti, menningu og annara þátta sem skapa sess okkar í samfélaginu. Þá bendir hún á að talsfólk innan femínískra hreyfinga hafi lengi viljað útiloka trans konur úr femínískum rýmum á grundvelli þess að þær séu „líffræðilega“ konur.
„Vissulega eru kyneinkenni áþreifanlegur hlutur og fólk sem hefur ákveðin kyneinkenni upplifir ákveðna kúgun út frá þeim—en að flokka kyneinkenni í „karlkyn“ og „kvenkyn“ er lítið annað en félagsleg flokkun á líkömum.“
Ugla Stefanía bætir við að hér á landi sé transfólk þó síður útilokað frá feminískum hreyfingum heldur en til dæmis í Bretlandi.
„Að mínu mati styður meirihluti femínista hérlendis trans fólk og talar fyrir þeirra réttindum og eru tilbúin að taka slaginn. Í mínum augum er það ótrúlega mikilvægt að við stöndum saman í þessari baráttu, þar sem ýmiss íhaldsöfl eru að rísa upp enn sterkari en áður.“
„Sem betur fer verð ég ekki eins vör við það á Íslandi, en í Bretlandi stend ég stöðugt í því að þurfa að leiðrétta og svara ýmsum mýtum sem hávær hópur anti-trans „aktívista“ endurtekur stöðugt, þrátt fyrir að hafa lítið í höndunum annað en fordóma, staðhæfingar byggðar á rangri túlkun rannsókna eða jafnvel hreinum tilbúningi. Oft mála þau upp allskyns myndir af trans fólki sem ofbeldisfólki eða pervertum, til að skapa ótta og viðbrögð, sem er klassískt stef beint úr skapalóni öfga-hægrisins, feðraveldisins og annara kerfa og hópa sem beita sér gegn jafnrétti.“