fbpx
Laugardagur 16.ágúst 2025
Fréttir

Egle hefur upplifað fordóma og orðið fyrir aðkasti fyrir að vera litháísk: Sagt að hún ætti að vera á Hells Angels fundi

Auður Ösp
Fimmtudaginn 27. september 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þó að ég sé orðin tvítug þá þýðir það ekki að þetta sé hætt.  Þetta aðkast hefur minnkað til muna en það er enn til staðar. Mestmegnis frá fólki sem þekkir mig ekki neitt og sér bara nafnið mitt. Sér bara einhvern útlending sem hefur komið til landsins til að taka vinnuna af öðrum,“ segir Egle Sipaviciute en hún var fjögurra ára gömul þegar hún fluttist frá Litháen til Íslands ásamt fjölskyldu sinni. Þrátt fyrir að hún upplifi sig sem hluta af samfélaginu þá hefur hún allt frá því í leikskóla fengið að finna fyrir fáfræði og fordómum sem aðfluttur Íslendingur.

Egle er í fornámi  við Myndlistarskólann í Reykjavík og vinnur með skólanum sem sviðsmaður hjá Þjóðleikhúsinu. Hún segir fólk oft gera ráð fyrir að hún sé íslensk, þangað til það heyri nafnið hennar.

„Jafnvel þótt að ég hafi komið til landsins fjögurra ára gömul þá finnst mér alltaf jafn óþægilegt þegar fólk segir „Þú ert Íslendingur.“ Eins ánægð og ég er að fólk taki mig svona mikið inn í samfélagið þá er ég líka stolt af því að geta sagst vera frá Litháen.  Ég er stolt af því að geta tala annað tungumál og ég er stolt af því að eiga auðvelt með að setja mig í spor fólks frá öðrum löndum.

Egle upplifir sig sem hluta af íslensku samfélagi í dag. Hér fær hún að blómstra og hér hefur hún tækifæri. En þegar hún var alast upp þurfti hún að yfirstíga ýmsar hindranir. Hún ólst upp í Vesturbænum og Hlíðahverfinu í Reykjavík.

„Mín fyrsta minning um það að finnast ég vera öðruvísi og útskúfuð var á fyrstu dögunum í leikskólanum.  Ég átti að byrja að læra íslensku og var því rosalega mikið með starfsmönnunum þar sem að þau kenndu mér ímis orð til daglegra nota.  Þegar allir hinir krakkarnir fengu frjálsan tíma til að fara i mömmó þá fór ég í sérherbergi með, eftir því sem ég man best, fáum öðrum krökkum sem voru nokkurskonar prakkarar.  Þar sátum við í sófa sem mig klæjaði undan og hlustuðum á starfsmann lesa uppúr bók.

Egle rifjar einnig upp annað skipti í leikskólanum þar sem hún skar sig úr hópnum. Sett var upp leikrit í leikskólanum og allir foreldrarnir mættu til að horfa á börnin sín, nema foreldrar Egle.

„Foreldrar mínir þurftu að vinna til að við myndum ná að borga af húsinu við bjuggum í. Það var ekki stórt hús en það dugði okkur. Ég á margar skemmtilegar minningar þaðan og foreldrar mínir reyndu sitt allra besta til þess að við systkinin gætum átt hamingjusama æsku.“

Talaði öðruvísi en hinir krakkarnir

Egle kveðst hafa upplifað sig sem „skrítnu stelpuna í bekknum“ eftir að hún byrjaði í grunnskóla.

„Það vildi enginn sitja hliðina á mér fyrstu dagana í fyrsta bekk af að því ég klæddi mig öðruvísi en hinir krakkarnir. Ég kom alltaf með öðruvísi nesti en hinir krakkarnir og ég talaði öðruvísi en hinir krakkarnir.

Síðan byrjaði þetta að vera flóknara og flóknara. Heima hjá var mér kennt að snýta mér en í skólanum var það ekki smekklegt þannig ég átti að sjúga upp i nefið. Ég átti alltaf að kom beint heim eftir skóla en hinir krakkarnir fóru að leika sér saman,“

segir Egle og bætir við að hún hafi einnig orðið útundan þegar það fór að vera vinsælt hjá krökkunum í skólanum að gista heima hjá hvor öðrum.

„Þá var ég skrítin því ég mátti ekki gista hjá vinum mínum. Það var bara eitthvað sem ekki tíðkaðist í okkar menningu.“

Egle var mikið strítt, og sérstaklega þegar jólin nálguðust, eftir að krakkarnir í skólanum komust að því að nafnið hennar merkir Grenitré á litháísku.

„Ég veit ekki hversu oft var dansað í kringum mig og sungin jólalög, á meðan ég grét. Ég veit ekki hversu oft ég bölvaði foreldrum mínum fyrir að hafa skýrt mig þessu fáránlega nafni,“ segir hún jafnframt en hún vissi þó ekki að Egle þykir einstaklega fallegt og sterkt nafn í heimalandi hennar.

„Ég var kölluð kennarasleikja, nörd, klöguskjóða og margoft sagt að þegja af samnemendum mínum. Það eina sem ég gerði var að vinna heimavinnuna mína og segja frá ef einhver var að brjóta reglur. Af því það er það sem mér var kennt: að vera heiðarleg við aðra og sjálfa mig.“

Egle segir aðkastið hafa verið svo slæmt að undir lokin hafi hún viljað skipta um skóla. Sem betur fer gripu skólayfirvöld í taumana og í kjölfarið komst á sátt milli Egle og einstaklinganna sem höfðu strítt henni hvað mest.

„Reynum að hlusta á hvort annað og skilja“

„Á unglingsárunum varð ég fyrir aðkasti, mestmegnis af einum einstakling sem sagði ýmis konar ógeðslega hluti um mig og þjóðerni mitt. Að ég ætti að vera á Hells Angels fundi, að ég ætti að gera hitt og þetta og fara aftur til heimalands míns.  Þessi einstaklingur gerði stöðugt grín af mér þar til að hann dró mest alla hamingju úr mér. Sem betur fer er þessi einstaklingur ekki partur af lífi mínu lengur.

„Það er af þessum ástæðum sem ég hef tileinkað mér það að vera alltaf jafn góð og tillitssöm við alla í kringum mig. Hvort sem viðkomandi er frá öðru landi eða öðruvísi i útliti eða sker sig einhvernveginn úr í samfélaginu.

Það eiga allir að eiga sama rétt á  því að komið sé fram við þá eins og fólk og jafningja. Afhverju á ég að vera einhver rosaleg undantekning á því að ná að blómstra i því frábæra landi sem Ísland er? Afhverju opnum við ekki augun sem þjóð og sjáum aðeins lengra en það sem augað nemur? Reynum að hlusta á hvort annað og skilja. Setjum okkur oftar í spor náungans og lærum af hvort öðru. Það er enginn fullkominn í þessu heimi. Hvorki ég, þú né neinn annar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Segir að ekkert muni koma út úr leiðtogafundinum í Alaska

Segir að ekkert muni koma út úr leiðtogafundinum í Alaska