Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í morgun karlmann vegna gruns um að vera með þýfi meðferðis. Í skeyti lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið með fulla innkaupakerru af verkfærum. Maðurinn var í annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu og var hann vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.
Tilkynnt var um tvö innbrot í bíla í morgun, í báðum tilfellum var farið inn í bíla í miðborginni. Þá var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Hafnarfirði í morgun og þjófnað úr verslun í bænum.
Loks var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut við Sprengisand klukkan rétt rúmlega sjö í morgun en þar hafði bifreið lent aftan á annarri bifreið. Var önnur bifreiðin óökuhæf þannig að flytja þurfti hana af vettvangi með dráttarbifreið. Sem betur fer urðu engin slys á fólki.