Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur undir nafninu Biggi lögga, er leiður yfir því að Hafnarfjarðarbær muni ekki lengur óska eftir þjónustu Haraldar Líndal sem bæjarstjóra. Í gær var ákveðið að Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, verði næsti bæjarstjóri.
Birgir Örn var í framboði fyrir Bæjarlistann sem kom einum manni inn í bæjarstjórn. Haraldur Líndal var bæjarstjóraefni flokksins en hann var ráðinn bæjarstjóri eftir kosningarnar 2014.
Í færslu sem Birgir skrifaði inn á Facebook-síðu íbúa Vallahverfis í Hafnarfirði segist hann hafa vissar áhyggjur af stöðunni, þó hann voni að Rósu farnist vel í starfi. Hann segir að Haraldur hafi staðið sig frábærlega, náð ótrúlegum árangri og auk þess vinsæll innan stjórnsýslunnar og meðal almennings.
„Ég verð samt líka að viðurkenna að ég hef því miður vissar áhyggjur af hverfinu okkar á komandi tímum,“ segir Birgir sem er búsettur á Völlunum.
„Ég vona svo sannarlega að þessar áhyggjur séu óþarfar. Málið er bara að í þessum nýja meirihluta er enginn Vallarbúi í tíu efstu sætum Framsóknar og fyrsti Vallarbúinn hjá Sjálfstæðismönnum finnst loksins í áttunda sæti. Þetta er fólkið sem er að leggja loka hönd á málefnasamninginn.“
Birgir segir líka að síðustu vikur hafi hann sé hversu mikið hitamál málefni íþróttafélaganna í bænum er. „Þegar maður skoðar liðsbúning meirihlutans sést að hann er all svakalega svarthvítur. Nú er að vona að það hafi ekki áhrif á ákvarðanatöku. Við verðum að treysta því að faglega verði unnið að málum og að litaflóran fái að njóta sín með hag allra bæjarbúa fyrir brjósti. Skúffusamningar og reykfyllt bakherbergi eru allavega ekki í boði,“ segir Birgir sem endar færsluna á þessum orðum:
„Elsta pólitíska hjónaband Íslands hefur endurnýjað heit sín í Hafnarfirði og faglega ráðnum bæjarstjóra hefur verið vikið til hliðar fyrir pólitískan. Við vonum að sjálfsögðu það besta, en það eru án efa áhugaverðir tímar framundan.“