Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian mun hefja áætlunarflug milli Íslands og Ítalíu í lok október næstkomandi. Flogið verður tvisvar í viku, alla fimmtudaga og sunnudaga.
Þetta kemur fram á vefnum Túristi.is.
Bent er á að skortur á áætlunarflugi milli Íslands og Ítalíu hafi verið áberandi undanfarin ár. Hafa ferðirnar verið bundnar við leiguflug í kringum skipulagðar skíðaferðir yfir hörðustu vetrarmánuðina.
Astrid Mannion Gibson, fulltrúi Norwegian, segir við Túrista að von félagsins sé að þessari flugleið verði vel tekið af Íslendingum og Ítölum. Að því er fram kemur á vef Túrista kosta ódýrustu fargjöldin nú um ellefu þúsund krónur. Flogið er frá Keflavík rétt fyrir hádegi en frá Róm klukkan sjö að morgni.